Fótbolti

Ótrúleg innkoma Ísaks sem skoraði þrennu og lagði upp eitt

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson var allt í öllu í ótrúlegum sigri Fortuna Dusseldorf í kvöld.
Ísak Bergmann Jóhannesson var allt í öllu í ótrúlegum sigri Fortuna Dusseldorf í kvöld. Matthias Balk/picture alliance via Getty Images

Ísak Bergmann Jóhannesson átti vægast sagt góða innkomu er hann kom inn af bekknum í mögnuðu 6-3 útisigri Fortuna Dusseldorf gegn Unterhaching í framlengdum leik í þýsku bikarkeppninni í knattspyrnu í kvöld.

Unterhaching, sem leikur í þriðju eftsu deild þýska fótboltans, tók óvænt forystuna þegar um tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og liðið leiddi því 1-0 þegar gengið var til búningsherbergja.

Ísak Bergmann kom inn af varamannabekknum í hálfleik, en heimamenn bættu öðru marki við á 55. mínútu og útlitið því orðið nokkuð svart fyrir Ísak og félaga.

Ísak lagði þó upp fyrsta mark gestanna á 65. mínútu og jafnaði svo sjálfur metin tveimur mínútum síðar.

Heimamenn náðu þó forystunni á ný á 71. mínútu, en eftur var Ísak á ferðinni þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka er hann jafnaði metin á ný. Reyndist það seinasta mark venjulegs leiktíma og því þurfti að grípa til framlengingar til að skera úr um sigurvegara.

Þar reyndust gestirnir frá Dusseldorf mun sterkari og Ísak fullkomnaði þrennu sína á 107. mínútu. Gestirnir bættu svo tveimur mörkum í viðbót við áður en flautað var til leiksloka og niðurstaðan því ótrúlegur 6-3 sigur Fortuna Dusseldorf sem er á leið í 16-liða úrslit bikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×