Fótbolti

Tvö rauð og Mané hetja Al-Nassr gegn lærisveinum Gerrards

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sadio Mané skoraði markið sem skaut Al-Nassr í átta liða úrslit.
Sadio Mané skoraði markið sem skaut Al-Nassr í átta liða úrslit. Yasser Bakhsh/Getty Images

Sadio Mané reyndist hetja Al-Nassr er liðið tók á móti Steven Gerrard og lærisveinum hans í Al-Ettifaq í sádi-arabíska Konungsbikarnum í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur 1-0 eftir framlengdan leik og Al-Nassr því á leið í átta liða úrslit.

Mikil töf varð á fyrri hálfleik vegna meiðsla og því var langur uppbótartími áður en liðin fengu að ganga til búningsherbergja. Á elleftu mínútu uppbótartímans dró loksins til tíðinda þegar Anderson Talisca, leikmaður Al-Nassr, fékk að líta bein rautt spjald og heimamenn þurftu því að leika seinni hálfleikinn manni færri.

Heimamenn héldu þó út og þegar fór að styttast í að grípa þyrfti til framlengingar fékk Ali Abdullah Hazzazi að líta beint rautt spjald í liði gestanna. Hazzazi nældi sér í rauða spjaldið á 89. mínútu og því var jafnt í liðum þegar komið var að framlenginunni.

Þar reyndist Sadio Mané hetja heimamanna er hann kom boltanum í netið á 107. mínútu leiksins. Reyndist það eina mark leiksins og niðurstaðan því 1-0 sigur Al-Nassr sem er á leið í átta liða úrslit, en Al-Ettifaq er úr leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×