Enski boltinn

Leitin að föður Luis Díaz enn án árangurs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Diaz hefur verið ráðlagt að fara ekki til Kólumbíu.
Luis Diaz hefur verið ráðlagt að fara ekki til Kólumbíu. Getty/Ian MacNicol

Leitin að föður Liverpool leikmannsins Luis Díaz hefur enn ekki borið árangur en Luis Manuel Díaz var rænt um helgina.

Lögreglan hefur leitað í lofti, láði og legi en nú síðast einbeitt sér að skógi í fjallendi í norður Kólumbíu.

Móðir Díaz var með föður þeirra þegar vopnaðir menn á mótorhjólum rændu þeim á bensínstöð í heimabæ þeirra Barrancas. Barrancas er fjörutíu þúsund manna borg nálægt landamærunum við Venesúela.

Móðirin sem heitir Cilenis Marulanda var bjargað af lögreglunni innan nokkurra klukkutíma en ekkert hefur frést af föðurnum.

Í boði eru 48 þúsund dollara fundarlaun fyrir upplýsingar sem leiða til þess að Luis Manuel Díaz komi í leitirnar en það eru meira en 6,6 milljónir íslenskra króna.

Lögreglan útilokar ekki möguleikann á því að Luis eldri hafi verið smyglað yfir landamærin og til Venesúela. ESPN segir frá.

Hinn 26 ára gamli Luis Díaz var ekki í leikmannahópi Liverpool á móti Nottingham Forest um helgina en liðsfélagi hans Diogo Jota hélt uppi treyju Díaz þegar hann skoraði fyrsta markið í 3-0 sigri.

Hingað til hefur engin krafa um lausnargjald borist og engir vopnaðir hópar hafa lýst yfir ábyrgð á mannráninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×