Dost hné niður í uppbótartíma leiksins. Hann hafði bæði skorað og lagt upp fyrir Nijmegen sem vann leikinn, 1-2.
Leikmenn liðanna mynduðu hring í kringum Dost meðan hugað var að honum. Hann komst nokkuð fljótt til meðvitundar og þakkaði áhorfendum fyrir sýnda umhyggju þegar hann var borinn af velli.
„Aðstoðin sem ég fékk á vellinum var stórkostleg,“ sagði Dost á samfélagsmiðlum Nijmegen eftir leikinn.
„Ég er á spítala núna og líður vel. Takk fyrir allan stuðninginn,“ bætti framherjinn við.
Hinn 34 ára Dost gekk í raðir Nijmegen fyrir tímabilið eftir eitt ár hjá Utrecht. Hann hefur komið víða við á ferlinum og lék átján landsleiki fyrir Holland á sínum tíma.