Enski boltinn

Leikur dagsins fór fram við erfiðustu kring­um­­stæður á ferli Klopp til þessa

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Klopp fagnar sigri dagsins.
Klopp fagnar sigri dagsins. EPA-EFE/PETER POWELL

Liverpool vann þægilegan 3-0 sigur á Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Sigurinn var leikinn í skugga frétta að foreldrum Luis Díaz, leikmanns liðsins, hafði verið rænt í heimalandinu.

Fyrr í dag bárust fréttir þess efnis að foreldrum Díaz hefði verið rænt í Kólumbíu. Díaz var nokkuð eðlilega ekki í leikmannahóp liðsins í leik dagsins.

Klopp sagði leikinn og úrslitin hafa verið góð fyrri sig og sitt lið en Liverpool hefur byrjað tímabilið af miklum krafti. Þessi leikur var þó öðruvísi en flestir til þessa.

„Við lékum við einhverjar erfiðustu kringumstæður sem ég hef upplifað. Þetta var mjög erfiður dagur sem endaði með góðum úrslitum og því besta sem við gátum gert fyrir bróður okkar var að vinna leikinn og dreifa huga hans ef til vill örlítið.“

„Eftir meira en 1000 leiki hefði maður haldið að maður hefði upplifað allt en nei. Þetta snýst þó ekki um okkur, þetta snýst um Lucho og hans fjölskyldu. Við leggjumst á bæn og vonumst að allt verði í lagi.“

„Það sem við getum gert og höfum nú þegar gert er að berjast fyrir bróðir okkar, og það er það sem við gerðum,“ sagði Klopp að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×