Það ku hafa verið gert því ekki tókst að breyta tillögunni á þann veg að ódæði Hamas-liða í Ísrael yrðu fordæmd.
Í yfirlýsingu frá þingflokki Vinstri grænna segir að Ísland hefði átt að samþykkja ályktunina þó breytingarákvæði Kanada hefði ekki farið í gegn.
Sjá einnig: „Hvert dauðsfall meðal almennra borgara er einu dauðsfalli of mikið“
„Telur þingflokkurinn að rétt hefði verið að styðja tillöguna sjálfa vegna umfangs mannúðarkrísunnar á Gaza. Þingflokkurinn tekur undir efni tillögunnar sem er í samræmi við málflutning íslenskra stjórnvalda,“ segir í yfirlýsingunni.
Þar segir að þingflokkurinn fordæmi árásir og morð á almennum borgurum skilyrðislaust og hvar sem er í heiminum. Þá krefst þingflokkurinn að farið sé skilyrðislaust eftir alþjóðlegum mannréttindalögum, að almennum borgurum sem haldið sé í gíslingu verði sleppt og leið lífsnauðsynja inn á Gasaströndina verði greidd tafarlaust.
Þingflokkur Vinstri grænna, sem er í ríkisstjórnarsamstarfi með Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum segir að fyrir því eigi íslensk stjórnvöld áfram að tala.