Íslenski boltinn

Fram muni rísa á ný: „Árangurinn kemur ef menn leggja á sig mikla vinnu“

Rúnar Kristins­son skrifaði undir þriggja ára samning við Fram í gær og tekur við stöðu þjálfara karla­liðs fé­lagsins í fót­bolta. Rúnar sér mikla mögu­leika í liði Fram sem stefnir hærra en árangur liðsins hefur verið undan­farin ár. Fé­lagið muni rísa aftur upp en árangur muni ekki nást nema menn leggi á sig mikla vinnu.

Aron Guðmundsson skrifar
Rúnar Kristinsson er nýr þjálfari karlaliðs Fram í fótbolta. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við félagið Vísir/Sigurjón Ólason

Rúnar Kristins­son skrifaði undir þriggja ára samning við Fram í gær og tekur við stöðu þjálfara karla­liðs fé­lagsins í fót­bolta. Rúnar sér mikla mögu­leika í liði Fram sem stefnir hærra en árangur liðsins hefur verið undan­farin ár. Fé­lagið muni rísa aftur upp en árangur muni ekki nást nema menn leggi á sig mikla vinnu.

„Það er bara búið að vera mjög gaman hérna upp á síð­kastið. Að kynnast starfs­fólkinu hér, stjórnar­með­limum og sjálf­boða­liðum,“ segir Rúnar, ný­ráðinn þjálfari Fram. „Ég hef fengið góðar mót­tökur og er mjög spenntur fyrir verk­efninu fram­undan. Leik­manna­hópurinn er mjög flottur, hann er skipaður af fullt af flottum strákum og hér eru miklir mögu­leikar.“

Mikið af símtölum en kaus Fram

Það er ekki á hverjum degi sem jafn reynslu­mikill þjálfari og Rúnar Kristins­son stendur fé­lögum til boða og því ekki skrýtið að nokkur þeirra hafi kannað í honum hljóðið.

„Ég fékk mikið af sím­tölum en fór í einar aðrar við­ræður sem voru mjög skemmti­legar en fólu í sér öðru­vísi verk­efni sem var ekki í sömu deild. Það hefði verið of­boðs­lega skemmti­legt verk­efni að taka að sér líka en ég vil vera á meðal þeirra bestu. Vera í efstu deild og það er það sem gerði út­slagið í þessu. Fram er með frá­bæra að­stöðu.

Þetta er gamal­gróið fé­lag sem hefur unnið á­tján Ís­lands­meistara­titla en liðið dá­lítið síðan sá á­tjándi skilaði sér. Þá er liðið langt síðan að fé­lagið varð bikar­meistari síðan, tíu ár. Fé­lagið hefur fært sig úr Safa­mýrinni hingað í Úlfarsár­dalinn og hér er fullt af tæki­færum í fram­tíðinni. Byggðin hér á eftir að stækka, hér er fullt af börnum og fé­lag sem á eftir að rísa aftur upp.“

Rúnar og formaður knattspyrnudeildar Fram, Agnar Þór Hilmarsson, handsala samninginn sem gildir til næstu þriggja ára.Vísir/Sigurjón Ólason

Þær eru margar, á­stæðurnar fyrir því að Rúnar á­kvað að stökkva á það gerast þjálfari Fram. Fyrst og fremst leist honum vel á leik­manna­hóp liðsins.

„Mér hefur fundist Fram liðið vera skemmti­legt á köflum, sér­stak­lega í fyrra. Í sumar voru þeir kannski ekki eins sterkir og í fyrra en samt fannst mér þeir ef eitt­hvað er vera með ör­lítið betri leik­manna­hóp. Sá leik­manna­hópur er hér enn þá og ég vonast til að geta nýtt hann mjög vel. 

Um leið vil ég kíkja á ungu strákana sem eru hér hjá fé­laginu og vonandi bæta ein­hverju við leik­manna­hópinn þannig að við getum unnið fleiri leiki en liðið hefur gert bæði í ár og í fyrra. Lyft liðinu að­eins upp töfluna.“

„Árangurinn kemur ef menn leggja á sig mikla vinnu“

Samningur Rúnars er sem fyrr segir til næstu þriggja ára. Hver eru mark­miðin?

„Þetta snýst um að reyna koma liðinu upp í topp sex sæti Bestu deildarinnar. Við ætlum að byrja á því. Með tíð og tíma, vonandi innan fárra ára, vill maður koma liðinu aftur inn í Evrópu­keppni og berjast um titla. En maður verður jafn­framt að passa sig á því að horfa ekki allt of langt fram á við í einu. Við ætlum að byrja á næsta tíma­bili. Reyna að styrkja leik­manna­hópinn. Styrkja leik­mennina. Gera þá betri. Gera liðið betra og sam­keppnis­hæfara.

Vonandi getum við tekið þátt í þeirri bar­áttu að berjast um þessi topp sex sæti. Nú ef ekki þá höldum við bara á­fram að vinna, bæta okkur og læra. Það er hluti af þroskanum fyrir alla. Fyrir mig sem þjálfara og fyrir leik­mennina. Árangurinn kemur svo ef menn leggja á sig mikla vinnu.“

Frá leik á FramvellinumVísir/Hulda Margrét

Rúnar á ekki von á miklum breytingum á leik­manna­hópi fram milli tíma­bila.

„Auð­vitað viljum við fá ein­hverja leik­menn inn. Það eru ein­hverjir leik­menn hjá okkur að renna út á samning. Ein­hverjir sem vilja kannski fara en það er bara eins og gengur og gerist í öllum fé­lögum. Við þurfum bara að sjá hvaða leik­menn henta í það sem við viljum gera hér. Það sem ég vil gera með liðið. Reyna að finna bestu leik­mennina í það. Ef við höfum kost á að velja þá er það gott. 

Það eru ekki alltaf allir sem vilja koma hingað og það þarf að ná samningum. Menn eru mis­dýrir og við þurfum bara að sníða stakk eftir vexti og reyna finna leik­menn sem eru til í að koma og vinna vinnu hérna og leggja hana á sig.“

Það vakti mikla at­hygli þegar að greint var frá á­kvörðun knatt­spyrnu­deildar KR að endur­nýja ekki samning sinn við Rúnar sem er goð­sögn í sögu fé­lagsins og hefur á tveimur mis­munandi þjálfara­skeiðum hjá liðinu sótt sex titla saman­lagt í deild og bikar.

Sáttur innst inni í sínu skinni

Rúnar var fljótur að finna sér nýja vinnu á meðan að KR hefur ekki ráðið inn nýjan þjálfara. Það héldu margir að með þeirri á­kvörðun að láta Rúnar fara væri KR búið að hugsa út í næstu skref en fé­lagið hefur enn ekki ráðið inn arf­taka hans.

„Ég vil helst og eigin­lega ekkert ræða það,“ segir Rúnar að­spurður um stöðuna hjá KR. „Það er ekki mitt að hafa skoðanir á því. Ég hef alveg mínar skoðanir en ég ætla ekki að viðra þær við al­menning. Ég held hins vegar að ég sé sáttur innst inni í mínu skinni og get verið á­nægður með mína á­kvörðun. Að vera kominn á þennan stað. Svo verða þeir bara að fá að vinna sína vinnu sem að stjórna KR.“

Eins og best verður á kosið

Hjá Fram er Rúnar að fara inn í fram­úr­skarandi að­stöðu. Að­staðan sem fé­lagið býr að er með þeirri glæsi­legustu hér á landi.

„Hún er of­boðs­leg flott. Bæði fyrir leik­mennina, þjálfara­t­eymið og alla sem koma að liðinu. Hér er allt til alls. Þetta er ný­tísku­hús með góðum búnings­klefum, lyftingar­að­stöðu, æfingar­sölum og frá­bæru gervi­grasi hérna úti. Þetta er bara eins flott og það gerist á Ís­landi.“

Frá leik á FramvellinumVísir/Pawel Cieslikiewicz





×