Mikael Neville skilaði af sér virkilega fínu dagsverki í leiknum gegn Lyngby sem lauk með 2-0 sigri AGF og hlaut Íslendingurinn verðskuldað lof í dönskum miðlum í kjölfarið.
Í Tipsbladet skrifaði blaðamaðurinn Jacob Quvang algjöra lofræðu um þennan öfluga kantmann:
„Þegar að Íslendingurinn hittir á svona leik hjá sér er hann einn af bestu leikmönnum dönsku úrvalsdeildarinnar. Á slíkum degi gæti hann mögulega komist í byrjunarliðið hjá öllum liðum deildarinnar. Þá myndum við fyrirgefa honum að klæðast vettlingum í fjórtán stiga hita.“
Mikael Neville er eini Íslendingurinn í liði umferðarinnar í þetta skipti í dönsku úrvalsdeildinni en tveir aðrir liðsfélagar hans hjá AGF, þeir Tobivas Molgaard og Tobias Bech, eru í liðinu.