Fótbolti

Vinícius hrósaði Sevilla fyrir að reka rasískan aðdáanda af velli

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Úr leik Real Madrid gegn Valencia síðastliðinn maí þar sem leikmaðurinn varð einnig fyrir kynþáttahatri og fagnaði marki með því að benda á aðdáendurna sem beittu hann því.
Úr leik Real Madrid gegn Valencia síðastliðinn maí þar sem leikmaðurinn varð einnig fyrir kynþáttahatri og fagnaði marki með því að benda á aðdáendurna sem beittu hann því. Getty/Mateo Villalba

Vinícius Júnior, leikmaður Real Madrid, hefur hrósað Sevilla fyrir skjót og góð viðbrögð við meintu kynþáttahatri sem hann varð fyrir í leik liðanna. Hann sagði þetta vera nítjánda skiptið sem hann verði slíkum fordómum og biðlar til spænskra yfirvalda að athafna sig í þeim málaflokki.  

Sevilla rak aðdáanda sinn burt af leikvangnum í 1-1 jafntefli gegn Real í gærkvöldi og tilkynnti hann til lögreglu. Félagið gaf út tilkynningu um málið skömmu síðar þar sem aðdáandinn er sagður hafa sýnt „rasíska hegðun og útlendingahatur“. Ekki kemur fram nákvæmlega hvað var gert eða sagt og hvert skotmark hans var en Vinícius setti inn færslu á samfélagsmiðlasíður sínar eftir leik þar sem hann sagðist hafa orðið fyrir barðinu. 

Vinicíus kallaði þetta sorglegt atvik og þakkaði Sevilla fyrir sín viðbrögð við málinu en kvaðst hafa annað myndband í höndum þar sem aðdáandi á barnsaldri sýnir rasíska hegðun. 

Hann kallaði eftir því að spænsk yfirvöld blönduðu sér í málið og færu að sækja menn til saka. Einnig bendir hann á fáfræðina sem býr að baki slíkri hegðun og sagði mikilvægt að fræða fólk um afleiðingarnar sem henni fylgja, líkt og hann hefur gert í heimalandi sínu Brasilíu. 

Vinicíus sagði þetta nítjánda einstaka atvikið sem hann verður fyrir. Fyrr í mánuðinum bar leikmaðurinn vitnisburð og afhendi sönnunargögn í réttarhöldum gegn þremur aðdáendum Valencia vegna atviks í leik liðsins gegn Real Madrid síðastliðinn maí. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×