Umfjöllun og viðtöl: Þór Þ. - Haukar 84-81 | Spennutryllir í Þorlákshöfn og heimasigur

Árni Jóhannsson skrifar
Tómas Valur Þrastarson átti frábæran dag
Tómas Valur Þrastarson átti frábæran dag Vísir/Bára

Þór Þ. fór með sigur af hólmi gegn Haukum í kvöld í miklum spennutrylli í þriðju umferð Subway deildar karla í körfuknattleik í Þorlákshöfn. Minnsti munur var á liðunum í kaflaskiptum leik en heimamenn héldu út í lok leiks. Leikurinn endaði með sigri Þórs 84-81 sem hefur þá unnið tvo leiki í röð.

Leikurinn byrjaði á köldu nótunum en mögulega má kenna veðrinu sem hefur verið á Suðvesturhorni landsins í dag um en liðin hittu nánast ekki neitt fyrst tvær mínútur leiksins en heimamenn voru þó fljótari að taka við sér. Þeir komu sér í 11 stig forskot þegar um fjórar mínútur voru liðnar en þá rönkuðu Haukar við sér og náðu að jafna metin í 20-20 þegar fyrsta leikhluta var lokið.

Haukar létu kné fylgja kviði í upphafi annars leikhluta en Þór vildi þó ekki alveg sleppa tökunum og voru yfir með einu stigi 29-28, þegar leikhlutinn var hálfnaður. Þá skildu leiðir örlítið því Haukar skoruðu næstu sjö stig og foru með fimm stiga forskot inn í hálfleikinn í stöðunni 42-37. Haukar hittu ákaflega vel úr þriggja stiga skotunum sínum í fyrri hálfleik sem ásamt fínum varnarleik á löngum köflum skilaði forystunni.

Það voru þó heimamenn sem byrjuðu betur og mættu mikið ákveðnari út í seinni hálfleikinn. Þeir stigu nær andstæðingnum og létu honum líða illa á löngum köflum og þegar þriðja leikhluta var lokið hafði orðið 11 stiga sveifla á leiknum. Þór leiddi með sex stigum fyrir lokaleikhlutann 66-58 og Haukar virkuðu mjög vankaðir.

Heimamenn héldu áfram í upphafi fjórða leikhluta og áður en við var litið var munurinn 11 stig, 70-59, og leið manni eins og þetta væri að fjúka frá Haukum. Hafnfirðingar hinsvegar bitur í skjaldarrendur og náðu að soga Þór nær sér og nær með þeim gildum sem höfðu skapað forskot þeirra í fyrri hálfleik. Góð vörn varð að góðri sókn og þegar 40 sekúndur voru eftir af leiknum var staðan jöfn 80-80. 

Þá fór í hönd skrýtinn lokakafli þar sem liðin skiptust á að klikka á vítum og henda boltanum frá sér en þegar upp var staðið voru það heimamenn sem unnu leikinn með þremur stigum 84-81. Virkilega öflugur sigur en Haukar þurfa að hugsa sinn gang.

Afhverju vann Þór Þ.?

Þegar varnarleikur þeirra small saman í upphafi seinni hálfleiks þá fylgdi sóknarleikurinn í kjölfarið. Þeir gerðu HAukum erfitt fyrir í sínum sóknarleik en nutu góðs af því í sínu stigaskori. Sveiflan sem leikurinn tók í þriðja og fjórða leikhluta var rosaleg og náðu Haukar ekki að brúa bilið sem myndaðist.

Hvað gekk illa?

Einbeitingarleysi Hauka gerði það oft að verkum að heimamenn straujuðu framhjá þeim til að skora mjög auðveldar körfur. Sóknarleikur þeirra einkenndist líka af ráðaleysi á löngum köflum sem gerði þeim erfitt fyrir.

Bestur á vellinum?

Tómas Valur Þrastarson var mikilvægasti maður leiksins. Hann stóð sína vakt í vörn mjög vel og svo skilaði hann svakalegri skot tölfræði. Hann klikkaði að vísu úr báðum þriggja stiga tilraunum sínum en hitti úr öllum sjö tveggja stiga skotunum sínum og öllum sjö vítunum sínum. 

Hvað næst?

Það þýðir ekkert að staldra við þennan leik of lengi því Þór fer austur á Hérað í næstu umferð og etur kappi við Hött sem gæti orðið hörkuleikur. Í sömu umferð eygja Haukar tækifærið að komast aftur á sigurbraut þegar þeir taka á móti Hamri sem er enn í leit að sínum fyrsta sigri.

Lárus: Það er gott að vera kominn með stigin

Þjálfari Þórs Þ. var að sjálfsögðu ánægður með sigurinn í kvöld þó ýmislegt megi náttúrlega laga í upphafi tímabils.

„Það var mjög gott að ná þessum sigri. Hann var kannski ekki stórglæsilegur, það var smá kafli í seinni hálfleik þar sem hann sóknarleikurinn var smurður. Annars var þetta klassískur baráttusigur. Við vorum með yfirhöndina en Haukar eru mjög gott sóknarlið og það getur kviknað auðveldlega á þeim. Þeir voru næstum því búnir að ná þessu með þriggja stiga skotunum sínum.“

Lárus var spurður að því hvernig honum lítist á þessa byrjun síns liðs. Umtalið var kannski ekki of gott fyrir tímabil en Þór er búið að vinna tvo leiki af þremur.

„Ég veit ekki hvort það sé hægt að meta þetta eitthvað mikið. Það eru búnir þrír leikir og við höfum unnið tvö mjög góð lið. Það er samt ekki mikið hægt að segja upp á framhaldið. Bæði lið geta spilað betur. Bæði lið geta spilað hraðar og verið snarpari. Þannig að það er gott að vera kominn með stigin. Eigum við ekki að segja það? Það er ekkert hægt að ráða í þetta upp á framhaldið“

Sést það að einhver karakter er að byggjast í þessu liði í Þorlákshöfn?

„Mér fannst við ná ágætlega fljótir að bregðast við því sem Haukarnir voru að gera. Menn voru að koma inn og sýna sitt rétta andlit. Raggi kom inn og var mjög góður í seinni hálfleik. Svo var Tómas eiga frábæran leik. Fannst hann að öðrum ólöstuðum skóp hann sigurinn með frábærum varnarleik og þegar við þurftum í seinni hálfleik á körfum að halda þá sótti hann þær.“

„Góður karakter? Já ég myndi segja það. Það hjálpar náttúrlega að vinna, þá fá menn meira sjálfstraust. Ég kannski ánægðastur með okkur að við erum að byggja þetta á varnarleik. Ég veit að sóknarleikurinn okkar mun koma og mér finnst hann oft á tíðum vera nokkuð góður hjá okkur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira