Íslenska landsliðið er í ágætri stöðu þegar kemur að möguleikunum á því að komst í umspilið um EM-sæti í mars næstkomandi. Hlutirnir gætu vissulega breyst í lokaumferðunum því úrslitin eru ekki ráðin í mörgum riðlanna.
Hollendingar hjálpuðu
Það er samt gott að vita af því að úrslitin voru okkur frekar hagstæð síðustu daga. Eftir leiki þessa landsleikjaglugga þá datt Ísland inn í umspilssæti en það gerðist endanlega þegar Hollendingar komust upp í annað sætið í sínum riðli.
Ísland er í sjöunda sæti í styrkleikaröð B-deildar Þjóðadeildarinnar og ein af þessum sex þjóðum fyrir ofan Ísland, Skotland, hefur þegar tryggt sér sæti á EM. Það voru góðar fréttir. Serbía er önnur sem situr eins og er í EM-sæti.
Sex þjóðir fyrir ofan okkur á listanum
Þjóðirnar fyrir ofan okkur úr B-deildinni eru Ísrael, Bosnía-Hersegovína, Serbía (inn á EM eins og er), Skotland (komið á EM), Finnland og Úkraína (inn á EM eins og er). Það eru þó ekki aðeins þær sem skipta máli heldur er það einnig best fyrir okkur að sem flestar þjóðir úr A-deildinni tryggi sér beint sæti á EM.
Það hefði verið gott fyrir Ísland að Bosnía næði öðru sæti í okkar riðli frekar en Slóvakía en vonir Bosníumanna dóu í þessum glugga. Þeir eru öruggir í umspilið en eiga ekki möguleika á að ná öðru sætinu í riðlinum.
Þar á Ísland enn tölfræðilega möguleika að enda í öðru sæti riðilsins en til svo að verði þarf allt að falla með íslenska liðinu. Raunhæfi möguleikinn er því að fara í gegnum umspilið.
Tólf þjóðir í þrjú umspil
Eftir síðustu leiki eru aðeins þrjár af A-deildarþjóðunum ekki í EM-sæti en það eru Króatía, Ítalía og Pólland. Það er best að það bætist ekki við þann hóp en Holland, Danmörk, Ungverjaland, Sviss, Tékkland og Wales hafa enn ekki tryggt sér sæti á EM.
Tólf þjóðir komist í þrjú mismunandi umspil þar sem í hverju þeirra munu fjórar þjóðir spila um eitt laust sæti á EM. Ísland mun keppa í B-deildar umspilinu komist liðið í þessa umspilskeppni.
Hér fyrir neðan má sjá þær þjóðir sem við Íslendingar viljum að tryggi sér beint sæti á EM en með því aukast líkurnar á því að íslenska liðið komist í umspilið.
A-riðill - Úrslitin ráðin (Spánn og Skotland á EM)
B-riðill - Holland
Hollendingar eru í öðru sæti en þeir eru með jafnmörg stig og Grikkir sem hafa bæði leikið einum leik meira sem og að hollenska liðið verður alltaf ofar í innbyrðis viðureignum endi þjóðirnar jafnar að stigum. Frakkar hafa þegar tryggt sér EM-sæti.
C-riðill - Úkraína
Úkraínumenn eru í öðru sæti eftir úrslitin í gær, með þremur stigum meira en Ítalir. Þessi riðill skiptir þó minna máli því ef Úkraínumenn taka sætið af Ítölum þá taka Ítalir alltaf umspilsætið í gegnum A-deildina og þar með fækkar aftur sætunum sem bætast við B-deildina. Englendingar tryggðu sér EM-sætið með sigri á Ítölum í gær.
D-riðill - Ekkert
Hér eru Wales og Króatía að berjast um síðasta sætið en þær eru báðar í A-deildinni og því mun annað hvort þeirra alltaf taka eitt umspilsæti A-deildarinnar. Tyrkir hafa þegar tryggt sér EM-sæti.
E-riðill - Pólland og Tékkland
Pólverjar (10 stig) og Tékkar (11 stig) eru að berjast um sætið við Albana (13 stig). Best væri ef Albanir komist ekki áfram en Pólland og Tékkar tryggi sig inn á EM. Þar myndu losna tvö umspilssæti í A-deildinni sem gæti mögulega færst niður í B-deildina og aukið fjölda sæta í boði þar. Albanir eiga hins vegar eftir tvö slökustu lið riðilsins og eru því í mjög góðum málum.
F-riðill - Úrslitin ráðin (Belgía og Austurríki á EM)
G-riðill - Serbía
Serbar sitja eins og er í öðru sæti riðilsins, einu stigi á eftir toppliði Ungverja og fimm stigum á undan Svartfellingum. Svartfjallaland á hins vegar leik til góða. Það er hins vegar mikilvægt fyrir umspilsvonir Íslands og Serbar haldi nágrönnum sínum fyrir neðan sig.
H-riðill - Finnar hjálpa okkur ekki úr þessu
Finnar voru í baráttunni um EM-sæti við Slóvena, Dani og Kasaka en klúðruðu því með tapi á móti Kasaktan. Nú eru þeir sjö stigum frá EM-sæti þegar aðeins sex stig eru eftir í pottinum. Þeir verða því að treysta á umspilið og þar eru þeir á undan Íslendingum inn.
I-riðill - Ísrael
Ísraelsmenn sitja í þriðja sætinu, fjórum stigum frá EM-sæti (Sviss) og fimm stigum frá toppnum (Rúmenía). Þeir eiga aftur á móti tvo leiki inn á Rúmena og einn leik inni á Sviss. Lykilleikur er heimaleikir á móti Sviss og Rúmeníu.