Enski boltinn

Segir að leikmenn lélegasta landsliðs heims hafi hótað að meiða stjörnu Man. Utd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rasmus Hojlund spilaði á Ítalíu og skilur ítölsku. Hann skildi því um hvað leikmenn San Marinó voru að tala og þeir voru að hóta því að meiða hann.
Rasmus Hojlund spilaði á Ítalíu og skilur ítölsku. Hann skildi því um hvað leikmenn San Marinó voru að tala og þeir voru að hóta því að meiða hann. AP/Felice Calabro

Danir rétt sluppu með þrjú stig frá leik sínum við San Marinó í undankeppni EM í gærkvöldi en Danir fengu á sig jöfnunarmark í leiknum.

San Marinó er opinberlega lélegasta landslið heims og hefur ekki unnið landsleik í 136 leikjum. Þetta var fyrsta mark liðsins í þessari undankeppni en markatalan var 0-24 fyrir leikinn.

Danir voru mjög pirraðir í gærkvöldi, bæði í leiknum sem og eftir þennan nauma sigur á lélegasta landsliði heims. Þeir náðu þó að skora sigurmark undir lokin og sleppa með skrekkinn.

Fyrirliði liðsins, Simon Kjær, gekk þó lengra en margir höfðu séð fyrir eftir slíkan leik. Hann var brjálaður út í dómara leiksins og sakaði líka leikmenn San Marinó um að hafa hótað því að meiða stjörnuframherja danska liðsins, Rasmus Højlund.

Rasmus Højlund skoraði fyrsta mark leiksins en hann var keyptur til stórliðs Manchester United í haust.

„Það er augljóst að við erum að segja eitthvað inn á vellinum og þá verður dómarinn pirraður út í okkur af því að við erum að segja eitthvað. Það er bara hluti af leiknum,“ sagði Simon Kjær við TV 2 Sport eftir leikinn.

„Það er síðan enginn vafi á því að það er klárt rautt spjald fyrir brotið á Højlund. Þetta er hundrað prósent viljandi og við vitum um dæmi með Neymar þar sem hann fékk hné í bakið og bakbrotnaði,“ sagði Kjær reiður.

Højlund fékk vissulega hné frá leikmanni San Marinó og lá sárþjáður á eftir.

„Þetta er hættulegt og það eru þrír dómarar rétt hjá þessu. Þeir (leikmenn San Marinó) voru þó búnir að hóta því við hann að þeir ætluðu að fara í vinstra hnéð hans,“ sagði Kjær.

„Ég fór og lét dómarann vita og spurði hvort hann vildi að ég túlkaði fyrir hann. Það er dómarinn sem ákveður línuna og hann verður að gera það sjálfur. Ég skil þetta ekki. Við höfum einnig VAR. Þú sérð þetta alla leið úr vörninni að þetta var hundrað prósent viljandi,“ sagði Kjær mjög pirraður eftir leikinn.

Højlund neitaði að þakka leikmönnum San Marinó fyrir leikinn.

Dómari leiksins var Viktor Kopiyevskyi frá Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×