Fótbolti

Mbappe tók fram úr Platini | Grikkir fóru upp fyrir Holland

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kylian Mbappe er orðinn fjórði markahæsti leikmaður í sögu Frakklands
Kylian Mbappe er orðinn fjórði markahæsti leikmaður í sögu Frakklands

Á öðrum vígstöðum í undankeppni EM 2024 fóru fjórir leikir fram. Holland tapaði fyrir Frakklandi sem gaf Grikkjum færi á að taka fram úr þeim. Belgar héldu út manni færri gegn Austurríki. 

Í B riðli fóru tveir leikir fram, Frakkland vann 2-1 gegn Hollandi og Grikkland 2-0 gegn Írlandi. 

Kylian Mbappe skoraði bæði mörk Frakka, það seinna með glæsilegu skoti rétt fyrir utan teig. Hann fór með þessum mörkum fram úr Michel Platini sem fjórði markahæsti leikmaðurinn í sögu franska landsliðsins. 

Grikkir gengu örugglega frá Írum á útivelli, 0-2, og komu sér upp fyrir Holland í annað sæti riðilsins. Hollendingarnir eiga ekki lengur möguleika á að vinna riðilinn, en geta tryggt sér sæti á EM með því að taka annað sætið aftur. Þeir eiga leik til góða og geta jafnað Grikkina að stigum. 

Í F riðli tapaði Eistland 0-2 fyrir Aserbaídjan. Öll von er úti fyrir Eista en Aserbaídjan getur enn komið sér í umspilssæti nái þeir góðum úrslitum í næstu leikjum. 

Belgía vann 3-2 útivallasigur gegn Austurríki og kom sér upp í efsta sæti riðilsins. Þessar þjóðir tvær hafa stungið hinar af, með 13 og 16 stig, Svíþjóð er svo í þriðja sætinu með 6 stig þegar þrír leikir eru eftir. 

Úrslit kvöldsins úr undankeppni EM: 

Portúgal - Slóvakía 3-2

Liechtenstein - Bosnía 0-2

Ísland - Lúxemborg 1-1

Eistland - Aserbaídjan 0-2

Austurríki - Belgía 2-3

Írland - Grikkland 0-2

Holland - Frakkland 1-2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×