Fótbolti

Meistararnir stálu stigi gegn Mikael og félögum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mikael Anderson lék allan leikinn í kvöld.
Mikael Anderson lék allan leikinn í kvöld. Vísir/Getty

Íslendingaliðin AGF og FCK gerðu dramatískt 1-1 jafntefli er liðin mættust í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Mikael var á sínum stað í byrjunarliði AGF og lék allan leikinn fyrir liðið. Orri byrjaði hins vegar á bekknum fyrir FCK, en kom inn á þegar um stundafjórðungur var eftir af venjulegum leiktíma.

Það var varamaðurinn Janni Serra sem skoraði eina mark liðsins er hann kom AGF í forystu á 73. mínútu eftir stoðsendingu frá Patrick Mortensen. Serra hafði verið inni á vellinum í rétt rúma mínútu þegar hann skoraði markið mikilvæga.

Gestirnir í FCK jöfnuðu hins vegar metin með marki frá Rasmus Falk á þriðju mínútu uppbótartíma og þar við sat.

Niðurstaðan því 1-1 jafntefli og FCK er nú með 23 stig í öðru sæti deildarinnar að ellefu umferðum loknum, níu stigum meira en AGF sem situr í sjöunda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×