Sport

Kín­verjar rit­skoðuðu sak­lausa í­þrótta­mynd af Asíu­leikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kínversku grindahlaupararnir Lin Yuwei og Wu Yanni faðmast eftir úrslitin í 100 metra grindahlaupi á Asíuleikunum.
Kínversku grindahlaupararnir Lin Yuwei og Wu Yanni faðmast eftir úrslitin í 100 metra grindahlaupi á Asíuleikunum. AP/Vincent Thian

Íþróttakonurnar Lin Yuwei og Wu Yanni föðmuðust sakleysislega eftir 100 metra grindahlaup á Asíuleikunum en myndin af faðmlaginu er bönnuð í Kína.

Yuwei og Yanni eru tvær af bestu grindahlaupurum Kína og voru þarna að keppa í úrslitum í greininni en Asíuleikarnir eru í gangi í Hangzhou í Kína.

Hér má sjá þessa mynd.@sportbladet

Sú fyrrnefnda vann gullið en sú síðarnefnda var seinna dæmd úr leik fyrir þjófstart.

En aftur að ritskoðun kínverskra yfirvalda og ástæðunni fyrir að þessi sakleysislega mynd var bönnuð.

Myndin kom fyrst inn á kínverska miðla en þeim var síðan skipað að taka hana út.

Ástæðan er að þegar þær föðmuðust þá sáust greinilega tölurnar 6 og 4.

Þær tölur tengjast beint mótmælunum á Torgi hins himneska friðar 4. júní 1989. Þetta voru stúdentamótmæli sem áttu sér stað í Peking sem voru kæfð niður eftir að Li Peng forsætisráðherra alþýðulýðveldisins lýsti yfir herlögum.

Kínverskir hermenn vopnaðir sjálfvirkum rifflum og skriðdrekum skutu á mótmælendur sem reyndu að loka leið þeirra á Torg hins himneska friðar í hinum svokölluðu Tianamen-fjöldamorðum. Talið að um þrjú þúsund stúdentar hafi verið drepnir á torginu.

Kínversk yfirvöld hafa síðan reynt að þurrka atburðinn út úr sögunni og allt tengt mótmælunum á Torgi hins himneska friðar er ritskoðað. Þar á meðal svona saklaus mynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×