Í E-riðli tók spænska liðið Atletico Madrid á móti Feyenoord í leik sem lauk með 3-2 sigri heimamanna. Leikar stóðu 2-2 í hálfleik en mark frá Alvaro Morata í upphafi síðari hálfleik tryggði Atletico Madrid sigur, liðið situr á toppi riðilsins með 4 stig. Feyenoord er í þriðja sæti með einu stigi minna.
Skotlandsmeistarar Celtic tóku svo á móti ítalska liðinu Lazio í hinum leik E-riðils. Celtic komst yfir snemma leiks með marki Kyogo Furuhashi en Ítalirnir svöruðu með tveimur mörkum og tóku stigin þrjú með sér heim. Lazio er sem stendur í 2.sæti E-riðils með 4 stig, jafnmikið og topplið riðilsins Atletico Madrid. Celtic er hins vegar án stiga á botni riðilsins.
Í F-riðli fór fram steindauður leikur Borussia Dortmund frá Þýskalandi við AC Milan. Leiknum lauk með markalausu jafntefli.
Ögn meiri spenna var fyrir viðureign Newcastle United og Paris Saint-Germain á St. James' Park. Leikurinn markaði endurkomu Meistaradeildar Evrópu til Newcastleborgar og skemmst er frá því að segja að heimamenn fóru á kostum í leiknum.
Leiknum lauk með 4-1 sigri Newcastle en mörk liðsins skoruðu þeir Miguel Almiron, Dan Burn, Sean Longstaff og Fabian Schar. Lucas Hernandez kom inn einu marki fyrir Frakklandsmeistarana en nær komust þeir ekki.
Newcastle er sem stendur á toppi F-riðils með 4 stig. PSG er í 2.sæti með þrjú stig og svo fylgja AC Milan og Dortmund þar á eftir með tvö stig og eitt stig.
Ríkjandi Evrópumeistarar Manchester City gerðu góða ferð til Þýskalands þar sem að liðið mætti RB Leipzig og fór þaðan af hólmi með 3-1 sigur. Manchester City er með fullt hús stiga á toppi riðilsins, Leipzig er með þremur stigum minna í 2.sæti.
Í sama riðli gerðu Crvena Zvezda og Young Boys frá Sviss 2-2 jafntefli í Serbíu. Bæði lið eru með eitt stig í þriðja og fjórða sæti.
Shakhtar Donetsk vann magnaðan endurkomusigur á útivelli gegn belgíska liðinu Royal Antwerp. Eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik sneru Úkraínumennirnir taflinu við í þeim seinni, unnu að lokum 3-2 sigur. Royal Antwerp fékk vítaspyrnu á lokamínútu uppbótatímans en Toby Alderweireld, leikmanni liðsins brást bogalistin á punktinum.
Í hinum leik riðilsins vann Barcelona 1-0 sigur gegn Porto á útivelli. Ferran Torres skoraði eina mark leiksins í uppbótatíma venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik. Barcelona situr á toppi riðilsins með fullt hús stiga. Porto er með þremur stigum minna líkt og Shakhtar í öðru og þriðja sæti. Royal Antwerp er enn án stiga.