Fótbolti

Brynjólfur skoraði og lagði upp í mikilvægum sigri

Smári Jökull Jónsson skrifar
Brynjólfur Andersen skoraði og lagði upp í dag.
Brynjólfur Andersen skoraði og lagði upp í dag. Kristiansund

Brynjólfur Andersen Willumson kom mikið við sögu þegar lið hans Kristiansund vann góðan útisigur á Sogndal í Íslendingaslag í norska boltanum í dag.

Brynjólfur var í byrjunarliði Kristiansund en í liði Sogndal mátti finna tvo fyrrum Fylkismenn, þá Óskar Borgþórsson og Valdimar Ingimundarson. Jónatan Ingi Jónsson byrjaði hins vegar á bekknum hjá Sogndal.

Fyrir leikinn í dag var Sogndal í 5. sæti deildarinnar en Kristiansund sæti neðar en liðin sem enda í 3. - 6. sæti fara í umspil um sæti í efstu deild.

Gestirnir frá Kristiansund byrjuðu af miklum krafti. Liðið komst í 2-0 í fyrri hálfleiknum og þannig var staðan þegar flautað var til hálfleiks.

Jónatan Ingi kom inn af bekknum snemma í síðari hálfleiknum og heimamönnum tókst að minnka muninn skömmu síðar. Brynjólfur skoraði hins vegar þriðja mark Kristiansund úr víti á 82. mínútu en lið Sogndal minnkaði muninn í 3-2 stuttu seinna.

Þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma innsiglaði Mikkel Rakneberg hins vegar sigurinn fyrir Kristiansund eftir sendingu Brynjólfs. 4-2 sigur gestanna staðreynd sem jafna þar með Sogndal að stigum í töflunni. Fimm umferðir eru eftir af deildakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×