Sport

„Munum taka íslensku geðveikina á þetta gegn Þýskalandi“

Andri Már Eggertsson skrifar
Telma Ívarsdóttir stóð sig frábærlega í markinu
Telma Ívarsdóttir stóð sig frábærlega í markinu Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Telma Ívarsdóttir, markmaður Íslands, var afar ánægð með að hafa haldið hreinu og náð í þrjú stig í fyrsta leik í Þjóðadeildinni.

„Nei það er ekkert betra, “ sagði Telma Ívarsdóttir aðspurð hvort það væri eitthvað betra en að ná í 1-0 sigur á Laugadalsvelli.

Þrátt fyrir að Wales hafi haldið betur í boltann þá fannst Telmu varnarleikurinn góður og gestirnir ógnuðu lítið markinu.

„Við héldum ekki nógu mikið í boltann en þegar þær voru með boltann þá gerðu þær ekki neitt og þær opnuðu okkur aldrei og mér fannst við spila varnarleik upp á tíu.“

Í hálfleik sagði Telma að liðið vildi halda betur í boltann í síðari hálfleik og vanda sig meira þegar að boltinn væri innan liðs.

„Við vorum að reyna að skerpa á því að halda betur í boltann og vera rólegri með boltann. Við vildum líka gera betur þegar við vorum með boltann og nýta þær stöður betur. En þær máttu alveg vera með boltann og þær gerðu ekkert þegar þær voru með boltann sem var fínt.“

„Við áttum fullt af föstum leikatriðum sem við erum sterkar í eins og við sýndum í kvöld. Við fengum dauðafæri í seinni hálfleik og við sýndum að þegar að við sækjum hratt á andstæðinginn þá getum við skorað.“

En hvað stóð upp úr fyrir markmanninn í þessum 1-0 sigri gegn Wales.

„Að halda hreinu og vinna fyrsta leikinn í Þjóðadeildinni.“

Næsti leikur Íslands er gegn Þýskalandi og Telma var spennt fyrir því verkefni og sagði að liðið myndi fara í þann leik til að vinna. 

„Við eigum eftir að fara yfir leikinn gegn Þýskalandi en við munum fara í þann leik eins og alla aðra og taka íslensku geðveikina á þetta og fara alla leið,“ sagði Telma að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×