Fótbolti

Hildigunnur tryggði íslensku stelpunum dramatískan sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hildigunnur Ýr í leik með Stjörnunni.
Hildigunnur Ýr í leik með Stjörnunni. Vísir/Vilhelm

Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir reyndist hetja íslenska kvennalandsliðsins skipað leikmönnum 23 ára og yngri er liðið mætti Marokkó í vináttuleik í dag.

Það voru heimakonur í Marokkó sem tóku forystuna þegar Ghabi kom boltanum í netið strax á 16. mínútu, en það reyndist eina mark fyrri hálfleiksins og staðan því 1-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Bryndís arna Níelsdóttir jafnaði þó metin fyrir íslensku stelpurnar á 66. mínútu áður en Karen Marí Sigurgeirsdóttir kom íslenska liðinu yfir tíu mínútum síðar.

Heimakonur fengu svo vítaspyrnu á 81. mínútu sem Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving varði, en marokkóska liðið fylgdi eftir og staðan því orðin jöfn á ný.

Sigurmarkið leit svo loks dagsins ljós á 87. mínútu þegar Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir kom boltanum í netið eftir gamla góða darraðardansinn í teignum.

Niðurstaðan því dramatískur 3-2 íslenska liðsins, en Ísland og Marokkó mætast þó að öðru sinni næstkomandi mánudag í öðrum vináttuleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×