Í fyrradag var greint frá því að Glódís, sem er nýskipaður fyrirliði Bayern, hefði skrifað undir nýjan samning við félagið til 2026.
Bayern lagði mikið í kynningu á þessum tíðindum. Glódís var áberandi á samfélagsmiðlum Bayern og í búð félagsins í München var flennistór mynd af íslenska landsliðsfyrirliðanum.
This view though... #MiaSanMia #FCBayern @glodisperla pic.twitter.com/NILHCZASwG
— FC Bayern Frauen (@FCBfrauen) September 20, 2023
Á blaðamannafundi fyrir leik Íslands og Wales í Þjóðadeildinni spurði Svava Kristín Gretarsdóttir Glódísi út í það hversu mikið púður Bayern hefði lagt í að kynna nýja samninginn hennar.
„Þetta kom mér á óvart. Ég bjóst ekki við þessu. Þetta var svolítið gæsahúðaraugnablik og ég hugsa að litla ég hefði verið ótrúlega stolt af þessu, að þau væru að gera þetta, ekki bara fyrir mig heldur fyrir kvennafótbolta yfirhöfuð, að þau séu að setja þennan metnað í að kynna leikmennina sína. Það fær fólk á völlinn og býr til áhuga og umtal, allt sem við viljum,“ sagði Glódís.
Glódís og stöllur hennar í Bayern hófu titilvörn sína með því að gera 2-2 jafntefli við Freiburg á föstudaginn.
Leikur Íslands og Wales hefst klukkan 18:00 í kvöld og verður í beinni textalýsingu á Vísi.