„Ég fagna því að þetta skip hafi verið stöðvað. Samt auðvitað spurði ég mig sjálfa strax að því af hverju bæði skipin hafi ekki verið stöðvuð og hef einhvern veginn ekki fengið skýringar á því,“ segir Valgerður í samtali við fréttastofu.
Eins og fram hefur komið tilkynnti stofnunin um tímabundna stöðvun á veiðum Hvals 8 vegna alvarlegra brota á lögum um velferð dýra við veiðar á langreyði. Stöðvunin hefur gildi þar til úrbætur hafa farið fram og verið sannreyndar af Matvælastofnun og Fiskistofu.
„En þetta eru stór tímamót, að MAST skuli yfirhöfuð nota þau verkfæri sem þau hafa til þess að framfylgja lögum um dýravelferð þannig að við fögnum því alveg innilega og vonum bara að þetta verði til þess að Hvalur 9 verði líka stöðvaður og að þetta verði til þess að hvalveiðar stöðvist til frambúðar.“
Valgerður segist fagna þessum áfanga. Þó segist hún ekki vita hver verði næstu skref. Hún voni það besta.
Var þetta fyrirséð?
„Nei, þetta var alls ekki fyrirséð. Samkvæmt okkar fólki og þeim sem hafa lesið reglugerðina þá einmitt virtust ekki vera viðurlög við því að brjóta lög í reglugerðinni sem við gátum séð en greinilega er eitthvað sem MAST telur sig geta gert samkvæmt nýrri reglugerð og það er bara mjög ánægjulegt að þau séu að gera það.“