Enski boltinn

Spilar ekki mið­svæðis með Man City og mun ekki gera það hjá Eng­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gareth Southgate og Phil Foden.
Gareth Southgate og Phil Foden. Franco Romano/Getty Images

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, segir það ekki koma til greina að spila Phil Foden í gegnum miðjuna þar sem hann geri það ekki með félagsliði sínu, Manchester City.

Þjálfarinn svaraði spurningum blaðamanna í aðdraganda vináttuleik Englands og Skotlands. Enska liðið gerði 1-1 jafntefli við Úkraínu í undankeppni EM á dögunum og segja má að liðið hafi verið heldur bitlaust.

Southgate var spurður út í það sem og ummæli sem hinn 23 ára gamli Foden lét falla fyrr á árinu þegar hann sagðist sjá fyrir sér að spila miðsvæðis síðar á ferli sínum.

„Hann spilar ekki þar fyrir félagslið sitt og það er væntanlega ástæða fyrir því. Það vilja allir tala um hvernig það er að vera með boltann miðsvæðis en það eru mörg smáatriði sem huga þarf að án bolta.“

„Í leikjum eins og um helgina (gegn Úkraínu) ertu að spila við lið sem eru mjög klók hvað varðar sendingar og hreyfingu án bolta. Þú þarft ávallt að vera rétt staðsettur þegar kemur að hvernig þú pressar. Ef þú gerir það ekki þá nærðu engu flæði í leik þinn, það verður ekkert flæði.“

„Þú verður að tala við Pep Guardiola, sem er besti þjálfari í heimi, og hverjir spila út á væng hjá honum. Hann hefur frjálsræði til að hreyfa sig þegar hann spilar út á væng og það er mikilvægt.“

Þá tók Southgate ekki í mál að Foden væri að spila miðsvæðis fyrir Man City eftir meiðsli Kevin de Bruyne.

„Hann var úti hægra megin gegn Newcastle United. Foden varðist úti hægra megin í 4-4-2 leikkerfi. Með boltann þá dró hann sig inn á völlinn og Kyle Walker kom utan á til að halda breidd. Hann fékk boltann miðsvæðis en byrjunarstaða hans var úti hægra megin. Hvað varðar taktík og staðsetningar þá var hann að koma inn af hægri vængnum,“ sagði Southgate áður en hann hrósaði Foden og sagði enska teymið ánægt með hans frammistöður.

„Hann er aðeins 23 ára gamall og þegar mjög reynslumikill. Hann er enn að þróa sinn leik og að læra en hann er frábær leikmaður fyrir okkur, engin spurning um það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×