Alex Chalk dómsmálaráðherra Bretlands greindi frá þessu við BBC. Umræður hafa orðið um hvort strokufanginn hafi átt að vera vistaður í fangelsi með meiri öryggisgæslu. Chalk segir að farið hafi verið eftir viðeigandi siðareglum í tengslum við í hvers lags fangelsi hann var vistaður.
Þá segir hann að öllum reglum um öryggi og mönnun hafi verið fylgt daginn sem maðurinn strauk.
Khalife var handtekinn í gær eftir að hafa verið í felum í rúmlega þrjá sólarhringa. Hann hefur verið í haldi lögreglu síðan þá.
„Nú er spurning hvort reglunum hafi verið fylgt til hins fyllsta,“ sagði Chalk í samtali við BBC í dag. Hann segist hafa hleypt af stað tveimur rannsóknum í máli Khalife, einni í tengslum við strok hans og annarri í tengslum við hvort hann hafi verið settur í fangelsi með hæfilegum öryggisbúnaði.
Khalife var vistaður í fangelsi í B-flokki samkvæmt breskum öryggisstöðlum. Verið er að rannsaka hvort hann hefði átt að vera vistaður í fangelsi í A-flokki, þar sem öryggisgæsla og eftirlit með föngum er meiri.
Chalk segir fjörutíu fanga hafa verið færðir í annað fangelsi meðan á rannsókninni stendur til þess að gæta varúðar. Aðspurður hvernig þeir hafi verið valdir eða hvers vegna mikilvægt var að þeir færðu sig vildi hann ekki svara.
Tilkynnt var um strok Khalife á mánudagsmorgun. Hann er sagður hafa komist út í gegnum eldhús fangelsisins, bundið sig undir sendiferðabíl og komist þannig út fyrir varnir fangelsisins. Hann var í meira en 22 kílómetra fjarlægð frá fangelsinu þegar lögregla náði haldi á honum í gær.