Fótbolti

Sigur hjá Stjörnunni eftir mara­þon­leik og víta­spyrnur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gunnhildur Yrsa lék með Stjörnunni í dag.
Gunnhildur Yrsa lék með Stjörnunni í dag. Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan vann sigur á Sturm Graz í forkeppni Meistaradeildar Evrópu eftir framlengdan leik og vítakeppni. Úrslit réðust ekki fyrr en í níundu umferð vítaspyrnukeppninnar.

Leikurinn í dag var leikur um 3. sæti í riðli í forkeppni Meistaradeildarinnar en eftir tap Stjörnunnar á miðvikudag gegn Levante var ljóst að liðið ætti ekki lengur möguleika á að fara áfram í riðlakeppnina.

Stjarnan var öflugra liðið í dag en liðin áttu í erfitt með að finna netmöskvana. Stjörnukonur fengu alls tólf hornspyrnur í venjulegum leiktíma og áttu mun fleiri skot á markið heldur en leikmenn Sturm Graz.

Staðan í hálfleik var markalaus og það var hún einnig í leikslok. Því varð að framlengja leikinn. Framlengingin varð sömuleiðis markalaus og grípa þurfti til vítakeppni til að fá fram úrslit.

Bæði lið misnotuðu eina vítaspyrnu í fyrstu fimm umferðunum og skoruðu síðan í fyrstu umferð bráðabanans. Í annarri umferð bráðabana misnotaði Sturm Graz sína spyrnu og það gerði Anna María Baldursdóttir fyrir Stjörnuna sömuleiðis.

Það var svo ekki fyrr en í níundu umferð bráðabanans sem úrslitin réðust. Þá klikkaði leikmaður Sturm Graz á vítapunktinum en reynsluboltinn Málfríður Erna Sigurðardóttir skoraði fyrir Stjörnuna.

Stjarnan nær því í sigur en er engu að síður úr leik í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×