Fótbolti

Juventus úr leik í Meistara­deildinni eftir víta­keppni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sara Björk með boltann í leik Juventus á miðvikudag.
Sara Björk með boltann í leik Juventus á miðvikudag. Vísir/Getty

Sara Björk Gunnarsdóttir og liðsfélagar hennar í Juventus eru úr leik í forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Liðið tapaði í dag gegn Frankfurt eftir vítakeppni.

Forkeppni Meistaradeildarinnar er skipt í tvennt, annars vegar er um ræða lið sem urðu meistarar í sínum löndum og hins vegar lið frá löndum sem eiga fleiri en eitt sæti í Meistaradeildinni.

Juventus og Frankfurt tilheyra síðarnefnda flokknum. Juventus lagði Okzhetpes Kokshetau í undanúrslitum riðilsins á miðvikudag á meðan Frankfurt, sem fjórum sinnum hefur hrósað sigri í keppninni, lagði FC Slovacko Uherske.  Leikurinn í dag var því úrslitaleikur um hvort liðið færi áfram í næstu umferð forkeppninnar þar sem fleiri lið bætast í hópinn.

Sara Björk var í byrjunarliði Juventus í dag og spilaði í sinni stöðu á miðri miðjunni. Fyrri hálfleikur í dag var markalaus en í upphafi þess síðari kom Sofia Cantore Juventus yfir þegar hún fylgdi eftir skoti sem Stina Johannes í marki Frankfurt hafði varið.

Frankfurt tókst þó að jafna metin á 66. mínútu þegar Lara Prasnikar skoraði af markteig eftir magnaðan sprett Nicole Anyomi sem hljóp með boltann upp stóran hluta vallarins. Ekki voru fleiri mörk skoruð í venjulegum leiktíma og því varð að framlengja. Frankfurt átti tvö skot í þverslána í fyrri hluta framlengingar og virtust líklegar til að tryggja sér sigurinn. 

Sara Björk komst reyndar nálægt því að tryggja Juventus sigurinn þegar skammt var eftir. Johannes fór þá í úthlaup, missti boltann en varnarmenn Frankfurt náðu að bægja skalla Söru Bjarkar frá á marklínunni. Skömmu síðar var Söru Björk skipt af velli vegna þess sem að því er virtust vera smávægileg meiðsli.

Þar sem ekki voru fleiri mörk skoruð í framlengingunni varð að knýja fram úrslit með vítaspyrnukeppni. 

Þegar komið var fram í fimmtu umferð vítakeppninnar var Juventus með yfirhöndina. Lineth Beerensteyn fékk tækifærið til að tryggja Juventus sigurinn en Johannes í markinu varði.

Í annarri umferð varði síðan Johannes enn á ný, í þetta skiptið frá Paulina Nyström. Leikmenn Frankfurt fögnuðu gríðarlega en niðurstaðan afar svekkjandi fyrir Söru Björk og liðsfélaga hennar sem misstu af gullnu tækifæri að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×