Fótbolti

Eden Hazard að leggja skóna á hilluna?

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Tími Hazard hjá Real Madrid hefur ekki farið eins og hann óskaði sér.
Tími Hazard hjá Real Madrid hefur ekki farið eins og hann óskaði sér. vísir/Getty

Eden Hazard, fyrrverandi leikmaður Real Madrid hefur gefið það sterklega í skyn að hann ætli sér að hætta í fótbolta. Hazard var leystur undan samningi sínum við Real Madrid í sumar og hefur ekki samið við neitt annað lið. Í stiklu fyrir heimildaþætti um belgíska landsliðið lét leikmaðurinn þau orð falla að nú væri „kominn tími til að njóta lífsins og drekka nokkra bjóra.“ 

Hazard hóf atvinnumannaferill sinn með LOSC Lille í Frakklandi þar sem hann var lykilmaður í fyrsta deildartitli liðsins í yfir 50 ár. Hann færði sig svo ári síðar um set til Chelsea og var einn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar um árabil. 

Árið 2019 var hann svo keyptur til Real Madrid á 115 milljónir evra en tíma sínum í spænsku höfuðborginni eyddi hann að mestu á meiðslalistanum. Þessi áður glæsti leikmaður náði sér aldrei almennilega á flug, spilaði aðeins 76 leiki og skoraði 7 mörk á fjórum tímabilum fyrir félagið. 

Hazard var fyrirliði belgíska landsliðsins en eftir vonbrigði liðsins á HM í Katar 2022 ákvað hann að gefa ekki lengur kost á sér í landsliðið. 

Nú lítur allt út fyrir að leikmaðurinn leggi skóna endanlega á hilluna eftir farsælan feril. Engin opinber yfirlýsing hefur verið gefin út, en þessi 32 ára gamli leikmaður virtist ekki hafa áhuga á því að semja við neitt félag í sumar og hljómar þessa stundina spenntari fyrir bjórdrykkju en knattspyrnuleik.  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×