Fótbolti

Mikil­vægi leiksins kýr­skýrt í huga Åge: „Verðum að mæta til leiks á fullu gasi“

Aron Guðmundsson skrifar
Åge Hareide varð að sætta sig við tap, 2-1 gegn Slóvakíu, í fyrsta leik sínum sem landsliðsþjálfari Íslands á laugardaginn.
Åge Hareide varð að sætta sig við tap, 2-1 gegn Slóvakíu, í fyrsta leik sínum sem landsliðsþjálfari Íslands á laugardaginn. VÍSIR/VILHELM

Åge Hareide, lands­liðs­­þjálfari ís­­lenska karla­lands­liðsins í fót­­bolta, sat fyrir svörum á blaða­manna­fundi liðsins fyrir leikinn mikil­­væga gegn Lúxem­­borg í undan­­keppni EM 2024 á morgun. Ís­lenska lands­liðið verður að sækja þrjú stig til þess að halda mögu­leikum sínum í riðlinum á floti.

„Við vitum að við eigum von á erfiðum leik vegna þess að þetta lið Lúxem­borgar er að gera mjög vel í undan­keppninni,“ sagði Åge á blaða­manna­fundinum í dag. „Ég hef verið hér áður sem þjálfari og þetta er lið sem hefur bætt sig mjög mikið milli ára.“

Ef ís­lenska lands­liðið ætlar að eiga ein­hverja mögu­leika á að komast beint á EM 2024 í Þýska­landi þarf það að vinna Lúxem­borg. Ís­lendingar eru í fimmta og næst­neðsta sæti J-riðils undan­keppninnar með þrjú stig, sjö stigum frá 2. sætinu þar sem Slóvakar sitja.

„Við fengum ekki stigin sem okkur vantaði gegn Slóvakiu og Portúgal í síðasta verk­efni. Lúxem­borg hefur gert mjög vel og leikurinn á morgun verður erfiður, en við erum undir­búnir fyrir það. Það er ekkert annað í boði en sigur fyrir okkur í þessum leik.“

En hvernig metur hann lið Lúxem­borgar nú frá því sem hafði kynnst áður úr fyrri viður­eign sinni?

„Liðið hefur bætt sig mjög mikið frammi­stöðu­lega séð sem lið. Það er stóra breytingin hjá liðinu og það er það sem er svo mikil­vægt á þessu lands­liðs­sviði. Þú þarft að byggja upp lið með á­kveðna menningu og koma upp hefð, það hefur Lúxem­borg gert mjög vel.“

Hafa hrist af sér flensu

En að liði Ís­lands. Eru allir leik­menn heilir og klárir í leikinn?

„Það eru allir klárir í leikinn, ein­hverjir leik­menn áttu við kvef að stríða fyrr í vikunni en þeir eru í lagi núna.“

Þá var Åge spurður út í það, af um­mælum hans í fyrri við­tölum að dæma, af hverju hann ein­blíni alltaf á það að ná 3.sæti riðilsins.

„Vegna þess að þriðja sætið er næst okkur og gefur okkur mögu­leika á um­spili í gegnum Þjóða­deild UEFA á næsta ári. Ef við náum ekki 2. sætinu þá stefnum við á það þriðja.“

Ís­lenska liðið megi ekki gefa liði Lúxem­borgar svæði til þess að spila sinn leik á morgun.

„Ef við gefum þeim svæði til þess að spila sinn bolta þá munu þeir gera það. Við verðum að passa upp á boltann og loka á styrk­leika þessa liðs. Við verðum að berjast af krafti á morgun.“

Klárt í hans huga hvað þarf að bæta

Åge hefur áður sagt að hann sé afar á­nægður með frammi­stöðuna sem ís­lenska lands­liðið sýndi í leikjunum gegn Slóvakíu og Portúgal í síðasta lands­liðs­verk­efni. Stiga­söfnunin var þó engin úr þeim leikjum, hvað vill Norð­maðurinn sjá ís­lenska lands­liðið bæta í komandi leikjum?

„Skora mörk, sér í lagi ef ég horfi á leikinn gegn Slóvakíu í síðasta verk­efni. Við áttum að ganga frá þeim leik. Þá þurfum við einnig að verjast vel og það höfum við sýnt að við getum vel gert. Það sama verður að vera upp á teningnum á morgun. Við verðum að mæta til leiks á fullu gasi.“

Leikur Lúxemborg og Íslands í undankeppni EM 2024 verður sýndur í beinni útsendingu og í opinni dagksrá á Stöð 2 Sport á morgun. Við hefjum upphitun klukkan 18:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×