Fótbolti

Antony sendur heim vegna á­sakana kærustunnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Antony er sakaður um líkamlegt og andlegt ofbeldi í garð kærustu sinnar.
Antony er sakaður um líkamlegt og andlegt ofbeldi í garð kærustu sinnar. Pedro Vilela/Getty Images

Knattspyrnumaðurinn Antony, leikmaður Manchester United, hefur verið sendur heim úr æfingabúðum brasilíska landsliðsins eftir ásakanir kærustu hans um líkamlegt og andlegt ofbeldi.

Brasilíska knattspyrnusambandið segir að þessi 23 ára gamli vængmaður hafi verið tekinn úr liðinu eftir að „ákveðnar staðreyndir sem þurfi að rannsaka hafi komið í ljós.“

Brasilíska fréttaveitan UOL birti í gær ásakanir Gabrielu Cavallin, kærustu Antony, á hendur honum. Leikmaðurinn neitar þó sök.

Lögreglan í Brasilíu og á Manchester-svæðinu rannsaka nú málið, en Antony segir að rannsóknin muni aðeins sýna fram á sakleysi hans.

„Ég get haldið ró minni og sagt að ásakanirnar á hendur mér eru ósannar og að þau sönnunargögn sem nú þegar hafi komið fram, sem og sönnunargögnin sem eiga eftir að líta dagsins ljós, munu sýna fram á sakleysi mitt í þessu máli,“ ritaði Antony á samfélagsmiðla sína.

„Ég treysti því að lögreglurannsóknin muni sýna fram á sannleikann um sakleysi mitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×