Frá þessu greinir Morgunblaðið.
Í blaðinu segir að Elliði hafi uppskorið mikið lófaklapp á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins um helgina, þegar hann spurði Óla Björn Kárason þingflokksformann hvort þingflokkurinn myndi verja Svandísi ef til þess kæmi.
Elliði segir nær öruggt að Svandís hafi brotið lög.
„Í kjölfar þess er eðlilegt að stjórnarandstaðan leggi fram vantrauststillögu á hendur Svandísi Svavarsdóttur. Þá þarf Sjálfstæðisflokkurinn að gera það upp við sig hvort hann ætli að láta það yfir sig ganga að í skjóli hans sé árás sem þessi á hendur atvinnulífinu leyfð og lög brotin. Ég er illa svikinn ef Sjálfstæðisflokkurinn fer þá leið,“ hefur Morgunblaðið eftir Elliða.
„Með fyrirvaralausri frestun hvalveiða virti matvælaráðherra hvorki stjórnsýslulög né gætti meðalhófs. Atvinnustarfsemi sem heimiluð er með lögum verður ekki lögð af án aðkomu Alþingis,“ segir í ályktun sem flokksráðsfundurinn samþykkti.