Fótbolti

Rússí­bana­reið þegar Barcelona vann góðan úti­sigur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Börsungar fögnuðu sigri í dag.
Börsungar fögnuðu sigri í dag. Vísir/Getty

Barcelona vann 4-3 sigur á Villareal þegar liðin mættust í spænsku úrvalsdeildinni í dag. Leikurinn var mikil rússíbanareið þar sem liðin skiptust á að hafa forystuna.

Það stefndi allt í þægilegan sigur Barcelona gegn Villareal því liðið var komið í 2-0 foyrstu eftir stundarfjórðung. Gavi og Frenkie De Jong komu gestunum í forystu og lið Villareal komið í vandræði.

Heimamenn voru þó fljótir að ranka við sér. Juan Foyth minnkaði muninn með skalla á 26. mínútu og Alexander Sörloth jafnaði metin fimm mínútum fyrir hálfleik. Staðan í leikhléi 2-2.

Endurkoma heimamanna var síðan fullkomnuð í upphafi síðari hálfleiks. Alex Baena skoraði þá og Villareal komið í 3-2 forystu.

Leikmenn Barelona létu þó ekki deigan síga. Ferran Torres jafnaði í 3-3 á 68. mínútu og aðeins þremur mínútum síðar kom Robert Lewandowski meisturunum aftur í foyrstu með fjórða marki liðsins.

Heldur betur mikið fjör og nóg eftir af leiknum. Það komu þó ekki fleiri mörk. Barcelona vann 4-3 sigur og er með sjö stig eftir þrjár umferðir í spænsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×