Enski boltinn

Kinn­beins­brotinn eftir átök helgarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Var vel bólginn þegar hann var tekinn af velli.
Var vel bólginn þegar hann var tekinn af velli. Visionhaus/Getty Images

Enski framherjinn Dominic Calvert-Lewin kinnbeinsbrotnaði í 4-0 tapi Everton gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag. Reikna má með að hann missi af næstu leikjum liðsins en Everton er sem stendur með 0 stig að loknum tveimur umferðum.

Everton hefur byrjað skelfilega í ensku úrvalsdeildinni og er liðið án stiga eftir tvo leiki. Það sem meira er þá hefur það ekki enn skorað mark og verður ekki líklegt til þess svo lengi sem Calvert-Lewin er frá keppni.

Framherjinn þurfti að yfirgefa Villa Park á sunnudag eftir aðeins 38 mínútur vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leiknum. Staðan var þá þegar orðin 2-0 Villa í vil en leiknum lauk með 4-0 sigri heimamanna.

Segja má að óheppnin elti hinn 26 ára gamla Calvert-Lewin á röndum en hann náði aðeins 17 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð vegna meiðsla. Nú hefur verið staðfest að um kinnbeinsbrot sé að ræða og því má reikna með að framherjinn missi af næstu leikjum Everton, ekki hefur verið gefið út hversu margir þeir verða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×