Enski boltinn

Man United fær brasilíska lands­liðs­konu frá Barcelona

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nýjasta viðbótin við leikmannahóp Man United.
Nýjasta viðbótin við leikmannahóp Man United. Twitter@ManUtdWomen

Hin 25 ára gamla Geyse Ferreira er gengin í raðir Manchester United frá Barcelona. Hún er framherji sem hefur spilað í Brasilíu, Portúgal og Spáni til þessa á ferli sinum.

Manchester United mun spila í Meistaradeild Evrópu á komandi leiktíð eftir að hafa átt afbragðsgóða síðustu leiktíð. Liðið hefur hins vegar misst lykilmenn, Alessia Russo fór til Arsenal og Ona Batlle til Barcelona.

Marc Skinner, þjálfari Man Utd, hafði ekki fyllt þau skörð þó svo að liðið hefði fengið Gemmu Evans, landsliðskonu Wales, frá Reading. Nú hafa Rauðu djöflarnir hins vegar sótt stórt nafn til að fylla skarð Russo í fremstu línu. Fyrr í dag var staðfest að Geyse væri komin frá Barcelona. Ekki kom þó fram hversu mikið Man United borgar fyrir hana né hversu langan samning brasilíska landsliðskonan skrifar undir.

„Ég er mjög ánægð með að vera hér. Að skrifa undir hjá Man United hefur verið einstakt fyrir mig og fjölskyldu mína. Ég er þakklát fyrir tækifærið og vil þakka öllum sem hafa lagt sitt á vogarskálarnar að gera þetta að veruleika,“ sagði Geyse er hún var tilkynnt sem nýjasti leikmaður Manchester United.

Geyse hefur spilað 48 A-landsleiki fyrir Brasilíu og skorað 6 mörk. Hún var hluti af Barcelona-liðinu sem varð Spánar- og Evrópumeistari á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×