Enski boltinn

Liver­pool komið í við­ræður vegna Amra­bat og búið að bjóða í fyrir­liða Stutt­gart

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sofyan Amrabat í leik með Fiorentina
Sofyan Amrabat í leik með Fiorentina Vísir/Getty

Sky Italia greinir frá því í kvöld að Liverpool sé búið að hefja viðræður við Fiorentina um möguleg félagaskipti Sofyan Amrabat. Þá hefur félagið einnig lagt fram tilboð í landsliðsmann Japans.

Það er ekkert leyndarmál að Liverpool hefur verið í leit að varnarsinnuðum miðjumanni og sérstaklega eftir að brasilíumaðurinn Fabinho yfirgaf félagið. Á síðustu dögum hefur liðið misst bæði af Moses Caceido og Romeo Lavia til Chelsea og stuðningsmenn félagsins lýst yfir óánægju með aðgerðaleysi félagsins á félagaskiptamarkaðnum.

Í kvöld greinir Sky Italy hins vegar frá því að Liverpool sé komið í viðræður við ítalska félagið Fiorentina vegna Marokkóans Sofyan Amrabat. Amrabat hefur verið undir smásjánni hjá Manchester United í allt sumar en félagið hefur ekki náð að selja þá Harry Maguire og Scott McTominey og því allt á ís hjá þeim í augnablikinu.

Liverpool virðist hins vegar ætla að nýta sér vandræði United og ætlar sér að næla í marokkóska landsliðsmanninn. Amrabat sló í gegn með landsliði Marokkó á heimsmeistaramótinu í Katar þar sem liðið komst alla leið í undanúrslit.

Þá sagði Fabrizio Romano frá því nú í kvöld að Liverpool hafi lagt fram tilboð í japanska miðjumanninn Wataru Endo sem leikur með Stuttgart. Endo er þrítugur miðjumaður og hefur leikið tæplega hundrað leiki fyrir Stuttgart þar sem hann er fyrirliði.

Þessar fréttir koma töluvert á óvart því Endo hefur ekki verið á lista fjölmiðla yfir þá leikmenn sem talið var að Liverpool hefði áhuga á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×