Fótbolti

„Besta skotið mitt á ævinni“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ella Toone fagnar marki sínu í undanúrslitaleiknum.
Ella Toone fagnar marki sínu í undanúrslitaleiknum. Getty/Brendon Thorne

Manchester United konan Ella Toone skoraði fyrsta mark enska landsliðsins í 3-1 sigri á Ástralíu í undanúrslitaleik HM kvenna í fótbolta í dag. Markið var glæsilegt og hún var líka ánægð með það í leikslok.

Þetta var fyrsta mark Toone á heimsmeistaramótinu en hún kom inn í byrjunarliðið þegar Lauren James var dæmt í tveggja leikja bann.

Toone fékk boltann út í teiginn frá Alessia Russo og skoraði með stórglæsilegu skoti upp í fjærhornið.

„Boltinn féll fyrir mig í teignum og ég hugsaði bara: Af hverju ekki að láta bara vaða?. Ef ég segi alveg eins og er þá er þetta besta skotið mitt á ævinni,“ sagði Ella Toone. Hún varð fyrsti landsliðmaður Englands, karl eða kona, til að skora í átta liða úrslitum, undanúrslitum og í úrslitaleik á stórmóti.

„Stundum þegar þú hittir boltann þá veistu að þú hefur hitt hann fullkomlega. Ég vissi um leið og ég hitti hann að hann væri að fara að syngja í netinu,“ sagði Toone. Ástralar fengu frábæran stuðning og enska liðið var svo sannarlega á útivelli í þessum leik.

„Áhorfendurnir voru á móti okkur í síðasta leik líka og í næstum því öllum leikjum okkar á mótinu hafa þeir verið á móti okkur. Við látum það ekki trufla okkur og hugsum bara um að landa sigrinum,“ sagði Toone.

„Við nærumst á þessu mótlæti. Það var okkar markmið að lækka í áhorfendunum þeirra og við gerðum það með þremur góðum mörkum. Eftir það heyrðist ekki mikið í þeim,“ sagði Toone.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×