Fótbolti

Englandsmeistararnir samþykkja tilboð Al-Nassr í Laporte

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aymeric Laporte gæti verið á förum frá Manchester City.
Aymeric Laporte gæti verið á förum frá Manchester City. Michael Regan - The FA/The FA via Getty Images

Englandsmeistarar Manchester City hafa samþykkt tilboð sádiarabíska liðsins Al-Nassr í spænska varnarmanninn Aymeric Laporte.

Greint er frá þessu í hinum ýmsu miðlum. Ekki kemur þó fram hversu mikið Al-Nassr kemur til með að greiða fyrir leikmanninn.

Þessi 29 ára gamli varnarmaður byrjaði 43 leiki fyrir City tímabilið 2021-2022, en tækifærin voru færri á síðasta tímabili þar sem þeir Mauel Akanji og Nathan Ake spiluðu stóra rullu í vörn liðsins er City vann þrennuna. Koma hins 21 árs gamla Josko Gvardiol til félagsins gerir það svo líklega að verkum að tækifæri Laporte verða enn færri.

Gangi félagsskipti Laporte til Al-Nassr eftir mun hann hitta fyrir leikmenn á borð við Cristiano Ronaldo, Sadio Mane, Marcelo Brozovic og Alex Telles. Laporte hefur verið í herbúðum Manchester City síðan í janúar 2018 þegar félagið keypti hann frá Athletic Bilbao fyrir 57 milljónir punda, sem var á þeim tíma metfé fyrir Englandsmeistarana.

Með Manchester City hefur Laporte orðið enskur meistari fimm sinnum, unnið ensku bikarkeppnina tvisvar, enska deildarbikarinn þrisvar og Meistaradeild Evrópu einu sinni. Hann á að baki 180 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 12 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×