Erlent

Telja gögn um lögreglumenn í höndum herskárra hópa

Kjartan Kjartansson skrifar
Simon Byrne, lögreglustjóri Norður-Írlands, baðst afsökunar á gagnalekanum í síðustu viku.
Simon Byrne, lögreglustjóri Norður-Írlands, baðst afsökunar á gagnalekanum í síðustu viku. AP/Liam McBurney

Norðurírska lögreglan telur sig hafa vissu fyrir því að herskáir hópar lýðveldissinna hafi undir höndum gögn um lögreglumenn sem hún deildi óvart opinberlega í síðustu viku. Óttast er að hóparnir noti upplýsingarnar til þess að ógna lögreglumönnum og skapa ótta.

Eftirnöfn, skammstafanir, vinnustöðvar og deildir allra lögreglumanna og starfsmanna lögreglunnar á Norður-Írlandi, fleiri en tíu þúsund manns, voru birtar á netinu fyrir misgáning í meira en tvær klukkustundir í síðustu viku. Upplýsingarnar voru óvart látnar fylgja með svari við fyrirspurn á grundvelli upplýsingalaga, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Gagnalekinn er sagður sérlega viðkvæmur á Norður-Írlandi því herskáir hópar beina enn stundum spjótum sínum að lögreglumönnum með sprengju- og skotárásum við og við þrátt fyrir að formlega hafi ríkt friður á breska yfirráðasvæðinu í aldarfjórðung.

Simon Byrne, lögreglustjórinn á Norður-Írlandi, sagðist þess fullviss að lýðveldissinnar hafi gögnin um lögreglumennina. Lögreglan gangi út frá því að þeir noti gögnin til þess að skapa ótta og óvissu og ógna lögreglumönnum og starfsmönnum lögreglunnar. Öryggisráðstafanir hafa verið hertar vegna þess.

Hluti af gögnunum þar sem nöfn lögreglumanna höfðu verið afmáð ásamt mynd af Gerry Kelly, þingmanni írska þjóðernisflokksins Sinn Fein, var hengd upp á vegg gegnt skrifstofu hans á mánudag, að sögn flokksins.

Byrne hélt því fram á mánudag að engir lögreglumenn hefðu sagt upp störfum í kjölfar lekans. Samband norðurírskra lögreglumanna sagði í síðustu viku að yfir það rigni fyrirspurnum frá áhyggjufullum félagsmönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×