Fótbolti

Þurftu að fresta fyrsta MLS-leik Messi af því að það gengur of vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar marki með Inter Miami CF. Hann er að spila með MLS liði en hefur enn ekki spilað í MLS-deildinni.
Lionel Messi fagnar marki með Inter Miami CF. Hann er að spila með MLS liði en hefur enn ekki spilað í MLS-deildinni. Getty/Megan Briggs

Góður árangur Inter Miami með Lionel Messi innan borðs hefur kallað á breytingar á leikjadagskrá liðsins.

Messi hefur spilað fjóra leiki með liðinu en allir þeir leikir hafa verið í deildabikarnum. Hann á enn eftir að spila sinn fyrsta leik í MLS-deildinni.

Sá leikur átti að vera á móti Charlotte FC og fara fram 20. ágúst. Í gær var hins vegar tilkynnt að þeim leik hafi verið frestað.

Ástæðan er frábært gengi Miami liðsins í deildabikarnum þar sem liðið er komið í átta liða úrslitin meðal annars þökk sé sjö mörkum í fjórum leikjum frá Messi.

Charlotte FC er einnig komið svona langt í keppninni og það er leikur í deildabikarnum daginn áður. Liðin mætast í deildabikarnum og það er öruggt að annað þeirra spilar því þennan leik 19. ágúst.

Miðar á leikinn hafa rokið út í þennan fyrihugaða fyrsta MLS-leik Messi og miðaverð er komið upp úr öllu valdi. Það verður samt ekki alveg það sama að eiga á miða á leikinn þegar hann er ekki lengur fyrsti leikur Messi í MLS.

Nú lítur nefnilega út fyrir að fyrsti leikur Messi í MLS deildinni fari ekki fram fyrr en 26. ágúst og það á móti New York Red Bulls. Þeir miðar gætu nú rokið upp í verði.

Þá verður Messi búinn að hefja leik í tveimur öðrum keppnum því bandaríski bikarinn hefst með leik Inter Miami á móti FC Cincinnati 23. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×