Fótbolti

Kolbeinn á skotskónum í óvæntum stórsigri Lyngby

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Fyrsti sigurinn í höfn.
Fyrsti sigurinn í höfn. Mynd/Lyngby

Íslendingalið Lyngby vann sinn fyrsta sigur á tímabilinu í dönsku úrvalsdeildinni í dag þegar liðið fékk Midtjylland í heimsókn.

Alls fjórir Íslendingar hófu leik þar sem Sverrir Ingi Ingason var í hjarta varnarinnar hjá Midtjylland á meðan Alfreð Finnbogason, Kolbeinn Birgir Finnsson og Sævar Atli Magnússon voru allir í byrjunarliði Freys Alexanderssonar hjá Lyngby.

Midtjylland hafði byrjað leiktíðina vel og unnið fyrstu tvo leiki sína í deildinni á meðan Lyngby hafði náð í eitt stig úr fyrstu tveimur leikjum tímabilsins.

Stefan Gartenmann, sem hóf leik við hlið Sverris í vörn Midtjylland fékk að líta rauða spjaldið strax á 6.mínútu og það færðu heimamenn sér í nyt.

Frederik Gytkjær kom Lyngby yfir með marki úr vítaspyrnu á 17.mínútu og eftir tæplega hálftíma leik var komið að alíslensku marki þegar Kolbeinn skoraði eftir stoðsendingu frá Sævari Atla Magnússyni.

Heimamenn í Lyngby bættu við tveimur mörkum í síðari hálfleik áður en Jo Gue-sung klóraði í bakkann fyrir gestina undir lok leiks og lokatölur því 4-1 fyrir Lyngby.

Á sama tíma í sömu deild lék Mikael Neville Anderson fyrsta klukkutímann í 0-2 sigri AGF á Hvidovre.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×