Enski boltinn

Fær að heyra það eftir at­vik næturinnar: „Best fyrir hann að halda sig fjarri“

Aron Guðmundsson skrifar
Samstuð Mullin og Bishop í leik Wrexham og Manchester United í nótt
Samstuð Mullin og Bishop í leik Wrexham og Manchester United í nótt Vísir/Getty

Phil Parkinson, knattspyrnustjóri Wrexham, lét Nathan Bishop, sem stóð í marki Manchester United í æfingarleik liðsins gegn Wrexham í nótt, heyra það í viðtali eftir leik og sakaði hann um glæfralega tilburði.

Paul Mullin, stjörnuleikmaður og helsti markaskorari velska knattspyrnufélagsins Wrexham, er á batavegi eftir harkalegt samstuð við markmann Manchester United í æfingarleik liðanna í nótt.

„Ég er brjálaður yfir þessu í fullri hreinskilni sagt,“ sagði Parkinson eftir leik. „Þetta var klaufa- og glæfralegt athæfi markvarðarins og það í leik á undirbúningstímabili. Ég er alls ekki ánægður með þetta.“

Atvikið átti sér stað snemma leiks, nánar tiltekið á 12. mínútu og var fljótt ljóst að eitthvað alvarlegt amaði að Mullin, sem er jafnan fljótur á fætur aftur eftir að hafa verið felldur til jarðar.

Í ljós hefur komið að Mullin hlaut samfallið lunga, meiðsli sem munu halda honum frá knattspyrnuvellinum í einhverjar vikur.

Sjálfur hefur Bishop beðist afsökunar í færslu sem hann birti á samfélagsmiðlum og þá reyndi hann að ná til Mullin eftir að hafa sjálfur verið tekinn af velli í hálfleik. Parkinson ráðlagði markmanninum unga þó að halda sig fjarri.

„Ég hef ekki séð markmanninn en það er líklega best fyrir hann að halda sig fjarri vegna þess að við erum alls ekki ánægðir. Athæfi hans verðskuldaði beint rautt spjald.“

Daily Mail hefur eftir heimildarmönnum sínum að forráðamenn Manchester United séu allt annað en sáttir með framgöngu Phil Parkinson, knattspyrnustjóra Wrexham í þessu máli.

Stjórinn hafi orðið til þess að æsingurinn í málinu hafi stigmagnast og orðið til þess að Bishop hafi fengið margvísleg ógeðfelld skilaboð á samfélagsmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×