Reglugerðin umdeilda var birt og tók gildi sama dag og fundur ríkisstjórnar var haldinn þar sem Svandís greindi frá ákvörðun sinni.
Morgunblaðið fjallar um málið í dag og hefur bréfið undir höndum.
Blaðið segir að í bréfi sínu bendi umboðsmaður á að stjórnvöld geti ekki tekið ákvörðun, sem sé í eðli sínu stjórnvaldsákvörðun, í formi almennra stjórnvaldsfyrirmæla og þannig komist hjá því að fylgja þeim málsmeðferðarreglum sem lög mæla fyrir um.
Spurningaflóð umboðsmanns
Þá krefur umboðsmaður ráðherrann svara við ýmsum spurningum er lúti að málinu.
Hann spyr hvort reglugerðin sé byggð á sjónarmiðum um velferð dýra en um hana gildi sérstök lög. Samkvæmt þeim sé ráðherra falið að setja í reglugerð nánari ákvæði um veiðiaðferðir í samráði við þann ráðherra sem fer með stjórn veiða á villtum fuglum og spendýrum, sem er umhverfis-, orku- og auðlindaráðherra.
Þá telur umboðsmaður nauðsynlegt að setja reglugerð um veiðiaðferðir til að tryggja að aflífun taki sem skemmstan tíma og valdi sem minnstum sársauka. Því óskar hann skýringa á því hvort heimilt hafi verið að byggja reglugerðina um veiðibann á ákvæðum laga um hvalveiðar en ekki á lögum um velferð dýra.
Einnig spyr umboðsmaður hvernig álit fagráðs um velferð dýra hafi orðið til þess að ráðherra gaf út reglugerð á grundvelli laga um hvalveiðar en horfði ekki til úrræða Matvælastofnunar í málinu. Ekki verði séð að hlutverk fagráðsins sé að vera matvælaráðherra til ráðgjafar um framkvæmd laga á sviði sjávarútvegsmála.
Þá spyr hann af hverju umsögn fagráðs um málið hafi ekki verið borin undir Matvælastofnun áður en ákvörðun um reglugerðarsetninguna var tekin og hvernig það geti samrýmst reglum stjórnsýsluréttar og sjónarmiðum um vandaða stjórnsýsluhætti.