Enski boltinn

Hreinsunin byrjuð á Old Traf­ford

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alex Telles hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Man United.
Alex Telles hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Man United. Jonathan DiMaggio/Getty Images

Erik ten Hag er byrjaður að fara „út með ruslið“ ef svo má að orði komast. Það er, Manchester United er byrjað að selja leikmenn sem eiga enga framtíð fyrir sér hjá félaginu.

Í dag var staðfest að brasilíski bakvörðurinn Alex Telles hefði verið seldur til Cristiano Ronaldo og félaga í Al Nassr í Sádi-Arabíu. Kaupverðið er talið nema fjórum milljónum punda eða tæpum 680 milljónum íslenskra króna.

Hinn þrítugi Telles gekk í raðir Man United árið 2020 frá Porto en náði sér aldrei á strik á Englandi. Hann var lánaður til Sevilla á Spáni á síðustu leiktíð en hefur nú verið seldur til Sádi-Arabíu. Bakvörðurinn á að baki 12 A-landsleiki fyrir Brasilíu.

Miðvörðurinn Eric Bailly hefur einnig verið orðaður við Al Nassr en hann var á láni hjá Marseille í Frakklandi á síðustu leiktíð. Enski landsliðsmaðurinn Harry Maguire hefur einnig verið orðaður frá félaginu. Þá er talið að annað hvort Fred eða Scott McTominay verði seldir fyrr heldur en síðar.

Áður hafði Man United selt hinn unga Charlie Savage til Reading og Zidane Iqbal til FC Utrecht. Þá hafa David De Gea, Phil Jones og Axel Tuanzebe allir yfirgefið félagið á frjálsri sölu. Þá voru lánssamningar Jack Butland, Marcel Sabitzer og Wout Weghorst ekki framlengdir. Ef allt gengur eftir má reikna með að Man United losi sig við 10 leikmenn í félagaskiptaglugga sumarsins.

Að sama skapi er búist við því að liðið festi kaup á framherja í sumar eftir að hafa keypt André Onana í markið og Mason Mount á miðjuna. Varnarmaðurinn Jonny Evans skrifaði svo undir tímabundinn samning við félagið en hvort hann verði framlengdur út tímabilið er óvitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×