Enski boltinn

Þrútnir leik­menn Man United vekja at­hygli

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Erik ten Hag og Marcus Rashford þegar sá síðarnefndi skrifaði undir nýjan samning.
Erik ten Hag og Marcus Rashford þegar sá síðarnefndi skrifaði undir nýjan samning. Manchester United

Myndir af þeim Marcus Rashford og Casemiro, leikmönnum enska knattspyrnufélagsins Manchester United, hafa vakið mikla athygli. Báðir leikmenn virka vel þrútnir eftir verðskuldað sumarfrí.

Um er að ræða algjöra lykilmenn í liði Erik ten Hag og verða þeir án alls efa í stóru hlutverki í vetur þegar Man United snýr aftur í Meistaradeild Evrópu. Rashford skrifaði nýverið undir nýjan samning á Old Trafford en myndir af kappanum við undirskriftina vöktu mikla athygli.

Aðeins nokkrum dögum áður hafði Rashford birt myndir af sér við æfingar þegar hann var enn í sumarfríi. Virkaði hann í fantaformi þar. Þegar kom að undirskriftinni var líkt og Rashford hefði bætt á sig þónokkrum kílóum eða einfaldlega hann væri með ofnæmi fyrir einhverju í nærumhverfi sínu. Hann var einfaldlega allur þrútinn.

Casemiro var ef til vill ekki jafn þrútinn á sínum myndum og Rashford en það má þó áætla að Brasilíumaðurinn hafi notið sumarfrísins. Skiljanlega þar sem hann spilaði 51 leik fyrir Man United á síðustu leiktíð.

Ten Hag vonast eflaust til að geta gefið miðjumanninum örlítið meiri hvíld á komandi leiktíð enda Casemiro orðinn 31 árs og ekkert að yngjast.

Man United er nú statt í Bandaríkjunum þar sem liðið mætir Arsenal, Wrexham, Real Madríd og Borussia Dortmund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×