Innlent

Nikó­tín­púðar gera líkams­ræktar­starfs­fólki lífið leitt

Bjarki Sigurðsson skrifar
Linda Björk Hölludóttir er stöðvarstjóri hjá World Class.
Linda Björk Hölludóttir er stöðvarstjóri hjá World Class. Vísir/Dúi

Nikótínpúðar gera starfsmönnum líkamsræktarstöðva lífið leitt þessa dagana. Að sögn stöðvarstjóra kvarta gestir ítrekað yfir því að fólk skilji púðana eftir hér og þar en ekki í ruslinu.

Linda Björk Hölludóttir, stöðvarstjóri hjá World Class, segir starfsmenn fá mikið af kvörtunum. Rætt var við Lindu í kvöldfréttum Stöðvar 2. 

„Þeir sem eru að nota svona nikótínpúða eru að skilja þá eftir á ólíklegustu stöðum. Við erum að fá mikið af kvörtunum í afgreiðsluna hjá okkur um þennan sóðaskap. Við ákváðum að taka á þessu,“ segir Linda. 

Púðarnir eru meðal annars skildir eftir í hólfum á upphitunartækjum og hefur World Class því ákveðið að setja límmiða í hólfin þar sem fólk er beðið um að vinsamlegast ekki setja púðana þangað.

Púðana má þó ekki einungis finna í upphitunartækjunum heldur á hinum ýmsu stöðum. Þar á meðal í rifum á bekkjum og í Betri stofunni.

„Hér í betri stofunni hjá okkur erum við með nokkrar tegundir af gufu og það er sama. Fól ker að troða þessu inn á milli þar sem þeir sitja eða skilja þetta eftir á gólfinu. Höfum fundið þetta undir bekkjunum inni á gólfinu hjá okkur,“ segir Linda.

Hún segir vandamálið vera orðið ansi stórt.

„Þetta er búið að vera hvimleitt í allan vetur. Aukning í notkun, sérstaklega hjá ungu krökkunum. Þetta er orðið hvimleitt vandamál,“ segir Linda. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×