Sport

Fimleikarnir hleypa Rússunum inn á ný

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rússneska fimleikakonan Angelina Melnikova sést hér á Ólympíuleikunum í Tókýó.
Rússneska fimleikakonan Angelina Melnikova sést hér á Ólympíuleikunum í Tókýó. Getty/ Jean Catuffe

Alþjóða fimleikasambandið hefur fellt úr gildi bann rússneskra og hvít-rússneskra fimleikamanna. Þeir mega keppa á ný en þó ekki undir fána þjóða sinnar.

Rússneskt og hvít-rússneskt fimleikafólk hefur verið í banni frá alþjóðlegum keppnum eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu. Frá 1. janúar næstkomandi mega þau keppa á ný.

Í yfirlýsingu frá stjórn Alþjóða fimleikasambandsins kemur fram að sambandið vilji með þessu virða rétt allra íþróttamanna og um leið sendi það þau skilaboð til allra að Alþjóða fimleikasambandið vilji frið.

Þetta þýðir að fimleikafólk frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi getur tekið þátt í undankeppni fyrir Ólympíuleikana í París sem fara fram á næsta ári.

Alþjóðaólympíunefndin hefur ýjað að því að hleypa rússnesku og hvít-rússnesku íþróttafólki inn á leikana en það hefur þó ekki verið tekin endanleg ákvörðun um það.

Fjöldi íþróttasambanda hefur haldið sig við bannið gegn íþróttafólki frá umræddum þjóðum en stríðið hefur staðið yfir síðan í febrúar á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×