Enski boltinn

Þjálfari Chelsea vill hjálpa fyrr­verandi læri­­sveini sínum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pochettino og Dele Alli í þá gömlu góðu.
Pochettino og Dele Alli í þá gömlu góðu. TF-Images/Getty Images

Mauricio Pochettino, nýráðinn þjálfari Chelsea, ætlar að rétta Dele Alli, leikmanni Everton, hjálparhönd. Dele blómstraði undir stjórn Pochettino hjá Tottenham en hefur engan veginn fundið sig undanfarin misseri og var meðal annars lánaður til Tyrklands á síðustu leiktíð.

Pochettino ræddi við fjölmiðla um helgina og fór yfir víðan völl. Hann telur Chelsea geta keppt við Manchester City á toppi deildarinnar en það sé ljóst að félagið þurfi að byrja af krafti.

Einnig ræddi hann fyrrverandi lærisvein sinn, Dele Alli. Sá var einn efnilegasti leikmaður Evrópu þegar Pochettino stýrði Tottenham en hefur ekkert getað um árabil. Þjálfarinn ætlar að ræða við Dele og reyna að aðstoða hann við að finna taktinn á nýjan leik.

„Ég vonast til að hafa tíma til að hringja í hann og ræða við hann því hann er frábær náungi. Ég vill hjálpa honum og sjá hvað ég get gert fyrir hann. Hann er enn ungur,“ sagði Pochettino en Dele er 27 ára gamall í dag.

„Ég veit að hann býr yfir andlegum styrk til þess. Það er langt síðan ég ræddi við hann síðast en ég vil heyra í honum og komast að því hvað hefur gengið á.“

Pochettino á erfitt verkefni fyrir höndum á Brúnni og verður forvitnilegt að sjá hvort hann hafi tíma til að hjálpa sínum fyrrum leikmanni að finna sig á nýjan leik. Takist Pochettino það verður Sean Dyche, þjálfari Everton, honum eflaust ævinlega þakklátur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×