Enski boltinn

Azpilicueta valdi At­letico Madrid

Smári Jökull Jónsson skrifar
Cesar Azpilicueta verður leikmaður Atletico Madrid á næstu leiktíð.
Cesar Azpilicueta verður leikmaður Atletico Madrid á næstu leiktíð. Vísir/Getty

Spánverjinn Cesar Azpilicueta verður leikmaður Atletico Madrid á næstu leiktíð. Hann kemur á frjálsri sölu frá enska félaginu Chelsea.

Cesar Azpilicueta hefur verið leikmaður Chelsea síðan árið 2012 og fyrirliði liðsins síðan 2019. Hann hefur nú ákveðið að róa á önnur mið en Azpilicueta var mikið orðaður við Barcelona fyrir síðustu leiktíð.

Hann hefur hins vegar ákveðið að ganga til liðs við Atletico Madrid og kemur til liðsins á frjálsri sölu þrátt fyrir að hafa átt eitt ár eftir af samningi sínum en Chelsea ákvað að sleppa Azpilicueta af virðingu við fyrirliðann.

Íþróttablaðamaðurinn Fabrizio Romano greinir frá því að samkomulag sé í höfn á milli Azpilicueta og forráðamanna Atletico og að hann verði tilkynntur sem leikmaður liðsins í allra nánustu framtíð.

Azpilicueta hefur leikið 350 leiki á ferli sínum með Chelsea en hann kom til liðsins frá franska liðinu Marseille eftir að hafa leikið með Osasuna á Spáni. Hann á þar að auki að baki 45 landsleiki fyrir spænska landsliðið og kom við sögu í tveimur leikjum liðsins á HM í Katar í lok síðasta árs.


Tengdar fréttir

Azpilicueta líka á leið frá Chelsea

César Azpilicueta, fyrirliði enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea, er á leið frá félaginu. Hann hefur samið við Inter frá Mílanó á Ítalíu til tveggja ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×