Verkið er meinhæðið en það hverfist um konur sem kynnast náið án þess að horfast nokkurn tímann í augu. Þær finna þó löngunina til þess að láta allt flakka. Stærstu leyndarmálin, vandræðalegar kynlífssögur, draumarnir og vonbrigðin fá að fljúga yfir skilrúmið og ekkert er heilagt. Þær horfast í augu við allt sem er geggjað og glatað og losa allan skítinn út til að búa til pláss fyrir eitthvað nýtt.

Þó svo að sýningin gerist inni á klósetti þá þýðir það ekki að hún fjalli bara um kúkasögur.
Sagan er hjartnæm og fjallar um vináttu tveggja kvenna. Því hvar annars staðar tengjast konur sterkari böndum en á klósettinu.
RELEASE / LÉTTIR er skrifað og flutt af Sally Cowdin og Unni Elísabetu og sprettur út frá þeirra persónulegu upplifunum. Með beittan húmor að vopni beina þær kastljósinu að mikilvægum málefnum sem sumum, sem ekki hafa leg, kunna að þykja óþægileg. Þær draga ekkert undan og deila því sem þær eru, voru og munu verða - og enda á því að láta allt flakka á fleiri veg en einn.

Þær Unnur Elísabet og Sally kynntust fyrst á Spáni þegar þær sátu saman á skólabekk í framhaldsnámi í leiklist með áherslu á skapandi skrif og leikstjórn.
„Við tengdumst sterkum böndum frá fyrsta degi enda deildum við sömu ástríðu fyrir skapandi skrifum, leiklist og húmor,“ segir Unnur og heldur áfram. „Við gerðum flest verkefni saman í náminu og okkur fannst ótrúlega spennandi að rannsaka það hvernig hægt væri að segja frá vandræðalegum eða erfiðum sögum á léttan eða húmorískan hátt.
Lærdómsríkt ferli
Við byrjuðum að skrifa þetta verk í upphafi árs 2023 með intensívum skriflotum. Ég fór til Ítalíu í tíu daga til að æfa verkið og taka handritið enn lengra og Sally kom til Íslands í rúmar tvær vikur til þess að klára sýninguna. Þetta ferli hefur verið ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt og með innliti frá mörgum frábærum leikkonum og leikstjórum sem hafa komið og gefið okkur nótur. Við getum ekki beðið eftir því að frumsýna það núna á Reykjavík Fringe og fara síðan að ferðast með það um allan heim. Við byrjum í London og Edinborg.“
Áhugasamir geta hlaupið til og tryggt sér miða hér en aðeins er um tvær sýningar að ræða.