Körfubolti

Hlynur getur náð fjögurhundruðasta leiknum næsta vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson heldur áfram sem fyrirliði Stjörnuliðsins.
Hlynur Bæringsson heldur áfram sem fyrirliði Stjörnuliðsins. Vísir/Bára Dröfn

Hlynur Bæringsson hefur nú staðfest það að hann ætlar að spila með Stjörnunni í Subway deildinni á næsta tímabili.

Stjarnan segir frá því á síðu sinni að Hlynur hafi framlengt samning sinn um eitt ár. Hlynur heldur upp á 41 árs afmælið sitt í næsta mánuði.

Þetta verður áttunda tímabil Hlyns með Stjörnunni en hann kom til liðsins árið 2016 eftir sex ár í atvinnumennsku.

Hlynur hefur nú leikið 384 deildarleiki í efstu deild og er í sjöunda sætinu yfir leikjahæstu leikmenn frá upphafi.

Hann vantar nú aðeins sextán leiki til að verða aðeins sá fjórði til að spila fjögur hundruð leiki í úrvalsdeildinni.

Hlynur er frákastahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi og vantar 50 fráköst til að verða sá fyrsti til að taka fjögur þúsund fráköst.

Hann er í sjötta sæti með 5198 stig og í níunda sæti með 1145 stoðsendingar.

Þegar við tökum úrslitakeppnina með þá hefur Hlynur skorað 6533 stig, tekið 5030 fráköst og gefið 1462 stoðsendingar í 475 leikjum á Íslandsmóti karla.

Hlynur lék sinn fyrsta leik í efstu deild með Skallagrími 16. október 1997 og það verða því liðin meira en 26 ár frá hans fyrsta leik þegar hann spilar í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×