Í ítarlegri sátt Íslandsbanka við fjármálaeftirlitið vegna margvíslegra brota á lögum og innri reglum félagsins þegar hann var einn umsjónaraðila við sölu á 22,5 prósenta hlut ríkisins á liðnu ári kemur meðal annars fram að bankinn hafi veitt Bankasýslunni „villandi upplýsingar“ um flokkun fjárfesta sem tóku þátt í útboðinu.
„Með þeirri háttsemi að bjóða almennum fjárfestum að taka þátt í útboði sem eingöngu var ætlað hæfum fjárfestum virti Íslandsbanki ekki útboðsskilmála Bankasýslunnar,“ segir fjármálaeftirlitið, en Íslandsbanki féllst sem kunnugt er á að greiða 1.160 milljónir króna í sekt vegna brotanna. Er það langhæsta sekt sem lögð hefur verið á íslenskt fjármálafyrirtæki.
Fjármálaeftirlitið rifjar upp í sáttinni, sem telur 96 blaðsíður, að salan í Íslandsbanka í marsmánuði í fyrra hafi farið fram með tilboðsfyrirkomulagi sem ekki sé algeng söluaðferð hér á landi og þátttakan var bundin við hæfa fjárfesta. Þá var um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka sjálfum að ræða.
Um sölu á ríkiseign var að ræða og voru hlutabréf í málsaðila sjálfum boðin til sölu sem hefði átt að leiða til þess að málsaðili vandaði sérstaklega til verka við framkvæmd þess.
„Með hliðsjón af eðli verkefnisins var sérstaklega mikilvægt að gætt væri að stjórnarháttum og innra eftirliti og að starfað væri af fagmennsku og vandvirkni í söluferlinu,“ segir eftirlitið.
Í sáttinni eru talin upp fjölmörg atriði þar sem bankinn er talinn hafa brotið lög og innri reglur sínar við framkvæmd útboðsins. Þannig hafi bankinn hvorki framkvæmt né skjalfest greiningu á hagsmunaárekstrum í tengslum við verkefni sitt við söluferlið.
„Þar með fór ekki fram mat á því hvort ráðstafanir málsaðila vegna hagsmunaárekstra hafi verið fullnægjandi, hvort þörf væri á frekari ráðstöfunum vegna verkefnisins eða hvort málsaðili ætti að láta ógert að taka að sér hlutverk umsjónar- og uppgjörsaðila útboðsins.“
Þá leiddi skortur á greiningu hagsmunaárekstra einnig til þess að málsaðili hafði ekki forsendur til að taka ákvörðun um hvort starfsmönnum væri heimilt að taka þátt í útboðinu á grundvelli reglna málsaðila um ráðstafanir gegn hagsmunaárekstrum. Íslandsbanki gerði sömuleiðis ekki allar viðeigandi ráðstafanir til að greina og koma í veg fyrir eða takast á við hagsmunaárekstra vegna þátttöku starfsmanna.
Á meðal þeirra sem tóku þátt í útboðinu voru stjóarnarmenn bankans, starfsmenn í markaðsviðskiptum auk þess sem Ásmundur Tryggvason, framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingabankasviðs, var á meðal þátttakenda.
Að mati fjármálaeftirlits Seðlabankans skorti sömuleiðis á að Íslandsbanki tryggði fullnægjandi aðskilnað Fyrirtækjaráðgjafar og Verðbréfamiðlunar, gerði fullnægjandi ráðstafanir til að uppfæra innri reglur og stefnu um hagsmunaárekstra í samræmi við lög um markaði fyrir fjármálagerninga og færi að innri reglum og verklagi sem bankinn hafði sett sér um hagsmunaárekstra.
Þá hafði bankinn ekki til staðar tryggt innra kerfi sem birtist í því að hann framkvæmdi ekki áhættumat í tengslum við aðkomu sína að söluferlinu.
Hlítni við reglur um hljóðupptökur hafði verið viðvarandi vandamál hjá málsaðila um langt skeið.
Á meðal alvarlegri brota bankans er að hann braut á lagaskyldum sem á honum hvíla þegar hann hvorki hljóðritaði né varðveitti símtalsupptökur ásamt því að hafa ekki gripið til allra tiltækra ráðstafana til að tryggja að starfsmenn ættu aðeins í samskiptum við viðskiptavini sem Íslandsbanki gæti varðveitt og afritað. Þá beitti bankinn ekki áhættumiðuðu eftirliti, hæfilegu að umfangi, með upptökum eða skrám um viðskipti og fyrirmæli, að sögn fjármálaeftirlitsins, sem bætir við:
„Hlítni við reglur um hljóðupptökur hafði verið viðvarandi vandamál hjá málsaðila um langt skeið.“
Þá kemur fram í samantekt fjármálaeftirlitsins að Íslandsbanki hafi flokkað átta viðskiptavini, sem voru almennir fjárfestar, sem fagfjárfesta án þess að skilyrði laga til þess hafi verið uppfyllt. Hann hafði ýmist frumkvæði að og/eða hvatti viðskiptavini til að óska eftir því að fá stöðu fagfjárfestis og þar með afsala sér þeirri réttarvernd sem flokkun sem almennur fjárfestir veitir. Íslandsbanki hafi einnig breytti flokkun viðskiptavina sem tóku þátt í útboði sem einungis var ætlað hæfum fjárfestum eftir að það hófst og allt fram að uppgjöri viðskipta. Þá vanrækti hann að framfylgja innri reglum og verklagi sem málsaðili hefur sett sér við flokkun viðskiptavina.
Íslandsbanki, sem var einn þriggja umsjónaraðila við útboðið, veitti jafnframt Bankasýslu ríkisins villandi upplýsingar um fyrirliggjandi tilboð í tilboðsbókinni sem lögð var fyrir stofnunina að kvöldi 22. mars 2022 með því að upplýsa ekki um að almennir fjárfestar stæðu að baki tilboði Eignastýringar og að tilboðin hefðu verið lögð fram með sama hætti og tilboð viðskiptavina Verðbréfamiðlunar og Fyrirtækjaráðgjafar.
„Þar af leiðandi fékk Bankasýslan ekki upplýsingar um nöfn þátttakenda og fjárhæð tilboða frá hverjum og einum þrátt fyrir að upplýsingar þess efnis lægju fyrir hjá málsaðila. Bankasýslu ríkisins voru einnig veittar villandi upplýsingar um flokkun þátttakenda í útboðinu þar sem níu viðskiptavinir málsaðila sem stóðu að baki tilboðum í tilboðsbókinni sem lögð var til grundvallar rökstuddu mati Bankasýslunnar til fjármála- og efnahagsráðherra voru ekki flokkaðir sem fagfjárfestar á því tímamarki,“ segir í sáttinni.
Eftirlitið segir sömuleiðis að Íslandsbanki hafi veitt viðskiptavinum sínum í eignastýringu „rangar og villandi upplýsingar“ – gegn betri vitund – í níu tilfellum um að lágmarksfjárhæð tilboða í útboðinu væri 20 milljónir þegar ekki var um slíka skilmála að ræða.
Með þeirri háttsemi að bjóða almennum fjárfestum að taka þátt í útboði sem eingöngu var ætlað hæfum fjárfestum virti Íslandsbanki ekki útboðsskilmála Bankasýslunnar.
Íslandsbanki uppfyllti ekki að öllu leyti skylduna til að starfa heiðarlega, af sanngirni og fagmennsku í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, með trúverðugleika fjármálamarkaðarins og hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi við undirbúning og framkvæmd útboðsins, að mati fjármálaeftirlitsins. Með þeirri háttsemi að bjóða almennum fjárfestum að taka þátt í útboði sem eingöngu var ætlað hæfum fjárfestum virti bankinn ekki útboðsskilmála Bankasýslunnar og gætti því ekki að hagsmunum hennar af því að farið væri að skilmálum útboðsins.
„Um sölu á ríkiseign var að ræða og voru hlutabréf í málsaðila sjálfum boðin til sölu sem hefði átt að leiða til þess að málsaðili vandaði sérstaklega til verka við framkvæmd þess. Háttsemi málsaðila er til þess fallin að hafa skaðleg áhrif á traust og trúverðugleika fjármálamarkaða,“ segir fjármálaeftirlitið.
Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka hefur sagt í viðtölum við fjölmiðla að hún hafi ekki íhugað að segja af sér sem bankastjóri vegna þeirra „alvarlegu“ brota sem bankinn hefur gengist við.
„Þetta er áfellisdómur yfir þessu verkefni,“ sagði Birna við Innherja fyrir helgi, og bætti við: „Ég hefði viljað sjá þetta verkefni unnið með öðrum hætti en ég lít ekki á þetta sem áfellisdóm yfir bankanum í heild. Bankinn hefur rekið íhaldssama áhættustefnu eins og ég held að markaðurinn geri sér grein fyrir.“