Enski boltinn

Chelsea reynir að nýta tengsla­net sitt í Sádi-Arabíu til að losa sig við leik­menn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Koulibaly er einn þeirra sem gæti verið á förum.
Koulibaly er einn þeirra sem gæti verið á förum. EPA-EFE/ANDREW YATES

Enska knattspyrnufélagið Chelsea er í óðaönn að reyna losa sig við leikmenn áður en það þarf að gera tímabilið upp fjárhagslega þann 30. júní. Þá er gott að eiga góða vini sem virðast eiga meiri pening þeir vita hvað þeir eiga að gera við.

Fjárfestingarfélagið Clearlake Capital, með Todd Boehly í fararbroddi, keypti Chelsea á síðustu leiktíð. Miklum fjármunum var eytt í janúar sem og þjálfararnir Thomas Tuchel og Graham Potter voru reknir.

Til þess að standast reglur Knattspyrnusambands Evrópu um fjárhagslega háttvísi sem og gefið nýjasta þjálfara liðsins – Mauricio Pochettino – nokkra aura til að eyða í leikmenn er Chelsea að reyna losa sig við fjölda leikmanna.

Miðjumaðurinn N‘Golo Kanté hefur nú þegar samið við eitt af fjórum liðum sem fjárfestingarsjóður Sádi-Arabíu, PIF, á þar í landi. Það vill þannig til að eigendur PIF, helstu embættismenn Sádi-Arabíu, og Clearlake Capital eru vel tengdir.

Raunar eru PIF og Clearlake meira en bara tengd. Blaðamaðurinn Colin Millar hefur greint frá því að PIF hafi fjárfest milljarða sterlingspunda í Clearlake.

Nú er Boehly að reyna nýta sér sambönd sín í Sádi-Arabíu til að koma leikmönnum þangað sem Chelsea vill losna við. Markvörðurinn Édouard Mendy, miðvörðurinn Kalidou Koulibaly og sóknarþenkjandi miðjumaðurinn Hakim Ziyech eru allir taldir vera á leiðinni til Sádi-Arabíu. 

Þá hefur Chelsea einnig reynt að ýta belgíska framherjanum Romelu Lukaku sömu leið en hann er ekki sannfærður.

Boehly og félagar segja að enginn frá Sádi-Arabíu hafi komið að kaupum Clearlake á Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×